Spá veðbanka um gengi Íslands í söngvakeppninni Eurovision í ár er ekki hliðholl Íslendingum.
Samkvæmt nýjustu tölum Eurovision World er Diljá Pétursdóttur, fulltrúa Íslands í keppninni í ár, spáð 29. sæti af 36 í heildarkeppninni.
Eins og greint var frá fyrr í vikunni eru veðbankar óvissir um hvort Diljá stígi yfirhöfuð á svið á úrslitakvöldinu sjálfu sem fer fram þann 13. maí í Liverpool á Englandi. Var henni þá spáð 24. sæti í heildarkeppninni en 14. sæti í undankeppninni.
Diljá verður sjöundi keppandinn til að stíga á svið þegar seinni leggur undanúrslita Eurovision fer fram 11. maí en tíu lög komast áfram um kvöldið.