Ballett í nafni hinnar fornfrægu bresku rokksveitar Black Sabbath er nú væntanlegur á fjalirnar í Birmingham Hippodrome í haust og verður frumsýndur þar, í „fæðingarborg“ Black Sabbath, en frekari sýningar eru svo á dagskrá í Plymoth og London.
Átta þekkt Black Sabbath-lög, þar á meðal Iron Man, War Pigs og Paranoid, hafa nú verið dubbuð upp í sinfóníuhljómsveitarbúning til flutnings hjá Konunglegu ballettsinfóníunni og er nú rætt um að hér fari fyrsti þungarokksballett tónlistar- og danssögunnar.
Gítarleikarinn Tony Iommi, sem var meðal stofnliðsmanna Black Sabbath árið 1968, segir þessa blöndu tón- og danslistar frábæra hugmynd en játar þó að hans fyrsta hugsun hafi verið „hvernig í ósköpunum ætla þeir að fara að þessu?“ Hann viti ekkert um dans enda hafi hann aldrei látið sjá sig á ballettsýningu.
Carlos Acosta, listrænn stjórnandi Konunglega ballettsins í Birmingham, segir drauminn ávallt hafa verið að vekja athygli, gegnum ballettinn, á stærsta fjársjóðnum sem Birmingham hafi gefið heiminum – Black Sabbath. Það rætist nú.
„Þetta verkefni vekur forvitni þar sem við komum úr heimi ballettsins sem nú mætir þungarokksheiminum. Hvernig samkomulag myndast þar og hver lokaútkoman verði er það sem veldur mér spennu,“ segir Acosta við breska ríkisútvarpið BBC.
Sjálfur átti hann þó hugmyndina sem hann kveður hafa kviknað í flugi til Havana á Kúbu þangað sem hann rekur uppruna sinn. „Ég var þarna með Jimmy Page [gamla brýninu úr Led Zeppelin] og vini mínum Clive Owen leikara og fór þá að gæla við hugmyndina um að búa til ballett með rokktónlist,“ segir hann af upptökum málsins.