Leið bresku framúrstefnurokksveitarinnar Jethro Tull liggur til Íslands í áttunda sinn og kemur hún fram í Eldborg Hörpu á fimmtudag, 4. maí, kl. 20. Það verða þrettándu tónleikarnir hér. Nýjasta plata sveitarinnar, RökFlöte, kom út fyrir fáeinum dögum og er þar aldeilis að finna norræna tengingu.
„Vinnutitillinn var RockFlute,“ segir Ian Anderson sem frægur er fyrir að leiða sveitina með einkennandi flautuleik sínum. „Ég hafði sagt við plötuútgáfuna að þetta yrði rokkplata með meðlimum Jethro Tull sem myndi innihalda mikið af flautuleik. Það var upphafspunkturinn; rokk og flauta. En eftir fyrsta daginn sem ég vann í plötunni var ég ákveðinn í að hún skyldi snúast um fjölgyðistrú. Ég hafði velt fyrir mér grískri goðafræði og rómverskri en ég heillaðist af áskoruninni sem fylgdi því að skrifa um norræna goðafræði.“
Anderson bætir við að það sé áskorun að vinna með norræna goðafræði þar sem þungarokkssveitir hafi gert það ótal sinnum auk þess sem hugmyndir um yfirburði norræna kynstofnsins og karlmannlega eiginleika víkinga hafi heillað menn á borð við Heinrich Himmler.
„Það eru ýmiss konar óheppileg hugrenningatengsl þegar kemur að norrænni goðafræði. En ég ákvað að taka þeirri áskorun að reyna að tækla það með gagnrýnni sýn á söguna. Ég sneri mér að Snorra-Eddu og sögum sem voru skrifaðar niður á 11. öld og ákvað að einbeita mér að þeim. Næstu dagar einkenndust af mikilli rannsóknarvinnu.
Fyrri hluti laga eitt til ellefu er hlutlaus lýsing á norrænu goði, persónuleika og hlutverki, en í seinni hlutanum tengi ég þær lýsingar við lífið sem ég þekki í samtímanum. Mér fannst það áhugaverð leið til að draga fram hliðstæður milli norrænna goða og mannlegs eðlis, þess góða, slæma og stundum óhugnanlega í veröld samtímans. Ég er hrifinn af hliðstæðum sannleik, líkingamáli og myndhverfingum. Ég reyni samt að skrifa á gáskafullan máta, ég er ekki að reyna að lokka fólk í átt að heiðni. Heiðni er áhugavert viðfangsefni sem hluti af almennri trúarsögu og ég hef haft áhuga á því frá unglingsárum. En ég verð að viðurkenna að mér finnst heiðni sem slík, allt þetta með að klæða sig upp og taka þátt í helgisiðum, frekar kjánaleg. Svo ætlunin með plötunni er sannarlega ekki að ýta fólki í átt að heiðni.“
Hvers konar tónlist er að finna á plötunni?
„Jethro Tull var lýst í bresku pressunni sem framsæknu rokkbandi og mér fannst það góð lýsing á því sem mig langar að gera. Því framsækið rokk er tónlist sem nýtir klassíska tónlist, þjóðlagatónlist og djass. Reyndar ekki blús í mínu tilfelli, því ég skildi blúsinn eftir á unglingsárunum þegar ég áttaði mig á því að ég gæti ekki orðið sannur blústónlistarmaður, þar sem það er þjóðlagatónlist blökkufólks í Bandaríkjunum. Mig langaði að vera nær evrópskum rótum mínum og gera tónlist sem var sett saman úr ýmsu sem er nær mínu heimalandi,“ segir Anderson.
„Mig langar ekki að gera bandarískt rokk og ról því ég er einfaldlega ekki bandarískur. Bandaríkjamenn geta þefað uppi eftirlíkingar. Ég furðaði mig þess vegna á því að þeir skyldu gleypa við Rolling Stones því þeir voru svo augljós eftirlíking. Ófrumleg stæling á tónlist blökkumanna í Bandaríkjunum og sungin með hræðilegum bandarískum uppgerðarhreim. Ég get skilið af hverju Bandaríkjamenn kunnu að meta Bítlana, þeir voru ekta, bara hópur af strákum frá Liverpool. En mér hefur alltaf þótt þeir sem herma eftir og syngja með asnalegum hreim svolítið fáránlegir.“
Viðtalið má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í gær.