Skærustu stjörnur heims mættu á Met Gala-hátíðina í New York-borg í gærkvöldi þar sem hönnuðurinn Karl Lagerfeld var heiðraður og setti tóninn fyrir klæðnað kvöldsins. Gestum var þó heldur brugðið þegar köttur Lagerfelds, hinn ástsæli Choupette, mætti á rauða dregilinn.
Á síðustu vikum hefur orðrómur verið á sveimi um að Choupette myndi leika frumraun sína á rauða dreglinum í ár, en þemað var Karl Lagerfeld: A Line of Beauty. Á hátíðinni var verkum fatahönnuðarins fagnað, en hann starfaði með mörgum af stærstu tískuhúsum heims. Lagerfeld lést úr krabbameini árið 2019.
Fæstir gestir eru því ókunnugir ketti Lagerfelds, en það sem virtist slá gesti út af laginu var stærð Choupette.
Síðar kom í ljós að það var frægur leikari sem skartaði búningi Choupette, en það var enginn annar en Jared Leto sem ákvað að fara alla leið á hátíðinni í ár. Undir búningnum var Leto klæddur í svarta kápu, gagnsæga blússu og svartar buxur.
Leto var ekki eina stjarnan sem sótti innblástur til kattar Lagerfelds, en tónlistarkonan Doja Cat mætti einnig á viðburðinn sem Choupette. Hún klæddist kjól með hettu frá Oscar de la Renta, en á hettunni voru kattareyru úr silfruðum pallíettum.
Fram kemur á vef Harpers Baazar að yfir 5.000 vinnustundir hafi farið í að útbúa klæðnað tónlistarkonunnar sem var þakin yfir 350 þúsund perlum.