Björk Guðmundsdóttir ætlaði að halda tónleika í Reykjavík í júní, en tónleikunum hefur verið aflýst vegna vandamála við framleiðslu þeirra. Allir tónleikagestir munu fá miðana sína endurgreidda.
„Upp hafa komið vandamál við framleiðslu tónleikanna sem við sjáum ekki fram á að geta leyst í tæka tíð. Við áttum okkur á því að þetta mun valda miðahöfum vonbrigðum og biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í fréttatilkynningu frá Björk.
„Við erum staðráðin í að leita allra ráða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig og munum yfirfara okkar verkferla með það í huga. Við vonumst enn til að geta fundið leið til að láta tónleikana verða að veruleika á næsta ári. En þar sem það gæti tekið einhverjar vikur eða mánuði að leysa öll tækni- og skipulagsmál, erum við tilneydd á þessum tímapunkti til að aflýsa og endurgreiða,“ segir einnig í fréttatilkynningu.