Eftir mörg ár af harðfylgi og eljusemi er síleski leikarinn Pedro Pascal að njóta verðskuldaðrar frægðar og næstum alhliða aðdáunar þökk sé þáttum eins og Last Of Us og The Mandalorian. Hann hefur sömuleiðis heillað fólk með sinni frjálslegu og einlægu framkomu.
Pascal sást nýlega ásamt meðleikara sínum, Bellu Ramsey, á For Your Consideration-viðburðinum í Los Angeles. Þegar þau stilltu sér upp fyrir ljósmyndara á rauða dreglinum tóku margir eftir því þegar Pascal lagði hönd sína á búk sinn og hélt henni þar í góða stund.
Ramsey gerði slíkt hið sama og þegar Pascal sá það hvíslaði hann að henni: „Þú veist af hverju?“ Hann dró andann djúpt og sagði: „Það er vegna þess að kvíðinn minn býr hérna.“
Pascal hefur verið myndaður ansi oft í þessari pósu á rauða dreglinum og á viðburðum víðsvegar um heim. Margt bendir til þess að hann hafi nýtt sér þessa tækni í yfir 20 ár - og eins nýlega og á Met Gala-hátíðinni á mánudaginn var.
Að sögn Keiths Humphreys, prófessors í geðlækningum við Stanford-háskóla, þá er þetta góð leið til þess að takast á við kvíða og róa sig bæði andlega og líkamlega. „Einbeittu þér að önduninni, settu fæturna flatt á gólfið. Brostu þó þér finnist ekki gaman að brosa,“ sagði Humphreys. „Spenntu vöðvana og slepptu þeim síðan, spenntu þá aftur og endurtaktu svo.“
„Að vera með kvíðaröskun er eitt algengasta geðheilbrigðisástandið í heiminum. Það er mikilvægt að samþykkja kvíðann og viðurkenna ástandið eins og Pascal virðist vera að gera,“ sagði Rick Warren, klínískur dósent í geðlækningum við Háskólann í Michigan.