„Djöfull er þessi gæi ruglaður“

Ingimar Birnir Tryggvason er leynivopnið á bakvið Prettyboitjokko.
Ingimar Birnir Tryggvason er leynivopnið á bakvið Prettyboitjokko. Samsett mynd

Ingimar Birnir Tryggvason er lítillátur en mjög svo hæfileikaríkur ungur maður sem er á hraðri uppleið í tónlistarbransanum. Hann er leynivopnið á bak við tónlistarvelgengni mannsins og lagsins sem flestir á Íslandi eru að tala um, um þessar mundir, Patriks Atlasonar og Prettyboitjokko.

Áhugi Ingimars á tónlistargerð, sköpun og framleiðslu byrjaði allt sem fikt. Þegar hann var 11 ára gamall gutti horfði hann á Youtube-myndbönd sem leiddu hann áleiðis í að fikta í forritinu Ableton

„11 ára byrjaði ég að stúdera tónlistarframleiðslu. Ég bjó til takta, tók upp raddir og lék mér í forritinu Ableton. Þetta byrjaði bara sem saklaust áhugamál.“

Í dag er Ingimar eftirsóttur tónlistarframleiðandi bæði hérlendis og erlendis og vinnur enn í sama tónlistarforriti og hann byrjaði að fikta við sem ungur drengur og er færni hans algerlega óviðjafnanleg. Hann og Patrik (Patti) hafa sameinað sköpunarkrafta sína og verið á fullu að semja tónlist og baka vandræði síðan í janúar. Hvert skyldi leyndarmálið á bak við samstarf þeirra tveggja vera. 

„Eilíft vesen og stöðug ævintýri“

„Við erum bara búnir að vera með læti, eilíft vesen og upplifa stöðug ævintýri frá því í janúar. Í fyrsta lagi átti hann ekkert að fá að koma í upptökur til mín en honum var bara troðið í stúdíóið af frænda mínum sem er góður vinur hans. 

Ég var sjálfur nýkominn að utan þegar frændi minn segir við mig: „Þú verður að gera lag með þessum gæja, hann segist ætla að verða nýjasta poppstjarna Íslands,“ segir Ingimar og hlær.

Patrik Atlason, betur þekktur sem Prettyboitjokko.
Patrik Atlason, betur þekktur sem Prettyboitjokko. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

Ungi tónlistarframleiðandinn var ekki alveg á sama plani og hafði ekki hugsað sér að hefja samstarf með Patrik. „Ég hugsaði bara: „Djöfull er þessi gæi f*** ruglaður!“ Svo bara veit ég ekki fyrr en honum er troðið inn í stúdíóið mitt. Ég var bara allt í einu kominn í Instagram-grúppu og þar var Patti.

Hann sendi á mig: „Ég mæti á morgun.“ Og hann kom á hádegi, næsta dag, nánast á slaginu og fór bara ekkert. Hann vildi ekkert fara. Í fyrstu upptökunni okkur bjuggum við til lagið Allar Stelpurnar, sem er fyrsta lagið á nýju plötunni. Félagi minn sem var þarna með okkur segir: „Hvaða rugl er þetta eiginlega?“ En það voru einhverjir töfrar í laginu sem við heilluðumst að.“ 

Sótti námskeið hjá stórstjörnu

Frá því að tónlistarástríðan yfirtók Ingimar hefur hann lagt mikið á sig til þess að láta framleiðandadrauminn rætast. „Ég sótti námskeið í lagasmíðum erlendis hjá einum stærsta lagahöfundi í heimi, Ryan Tedder, söngvara One Republic. Hann skrifaði meðal annars lagið Halo fyrir Beyoncé og fleiri vinsæl lög sem hafa náð á topp vinsældalista um allan heim. Hann kenndi okkur hvernig á að semja slík lög. Þetta eru allt formúlur og töfrar.

Ég hitti sömuleiðis listamenn víðsvegar að og byrjaði að vinna með fólki út um allan heim. Ég fór til Los Angeles í verkefni, vann með fólki í Flórída og Atlanta og alls konar rugl. Síðan var ég bara nýlentur á Íslandi þegar ég hitti Patta,“ segir Ingimar, glaður í fasi. Samstarfið var greinilega skrifað í stjörnurnar. 

Ingimar hefur verið með annan fótinn í Los Angeles síðustu …
Ingimar hefur verið með annan fótinn í Los Angeles síðustu ár. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

„Hann er mjög góður að búa til eyrnaorm“

Frægðarsól Patrik hefur skinið ofurskært síðastliðnar vikur og vita bæði leikskólabörn, ömmur og afar Íslands og flestallir þar á milli hver þessi ungi tónlistarmaður er. Ingimar er mjög ánægður og stoltur með samstarfið og glaður að hafa óvænt fengið verkefnið upp í hendurnar. 

„Hann er mjög flottur þegar kemur að því að vita hvað er grípandi. Við erum með mjög góð tengsl og skiljum hvorn annan. Hann auðveldar mér hlutina og setur þá niður í það sem þeir eiga að vera. Hann er mjög góður að búa til eyrnaorm, eitthvað sem fólk losnar ekki auðveldlega við. 

Hann er líka alltaf að verða betri og betri, mjög viljugur og vill læra. Patti hefur gott eyra fyrir tónlist, mikinn áhuga og er vinnusamur og duglegur. Það er þetta sem gerir hann að Prettyboitjokko,“ segir Ingimar um félaga sinn og samstarfsaðila.

„Ég ætlaði bara að hjálpa honum þarna rétt í byrjun og ætlaði ekkert að halda því áfram eftir að við vorum búnir að setja niður tvö lög. Ég fékk verkefni í Los Angeles eftir að við tókum upp lögin Prettyboitjokko og Allar Stelpurnar. Ég sagði við hann að ég þyrfti að fara en hann leyfði mér það einfaldlega ekki þar sem hann sagðist ætla að verða stærsta stjarna á Íslandi,“ segir Ingimar.

Umdeildur en vinsæll

Það er kannski fátt sem tengir karaktera og fas Patriks og Ingimars. Patrik Atlason er 28 ára gamall og ansi litríkur, hávær og athyglisverður karakter. Honum finnst ekki leiðinlegt að láta taka eftir sér og er framkoma hans eftir því. Ingimar er hins vegar hlédrægari en félagi sinn og sáttur við að fylgjast með af hliðarlínunni. Tónlistarástríðan leiddi þá þó saman og finnst þeim ekki leiðinlegt að vinna saman og skapa nýja tónlist og eiga þeir báðir sínar sterku hliðar sem hafa hjálpað lögum þeirra að ferðast víða. 

„Hann er frasakóngur og það hefur hjálpað öllum lögunum okkar. Patti fer bara beint á „mic-inn.“ Hann nennir ekkert að setjast niður og semja. Hann segir bara orð eins og „Prettyboitjokko“ og ég hugsa bara: „Hvað þýðir það?“

Ég get ekki sagt að ég hafi áður unnið með svona listamanni en honum er alveg sama og er bara til í allt. Það er líka hægt að ýta honum út í hvað sem er,“ segir Ingimar þegar hann lýsir félaga sínum.

Orðið sem byrjaði allt.
Orðið sem byrjaði allt. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

„Vissum að þetta yrði milli tannanna á fólki“

„Patti er markaðssetningarsnillingur og viðbrögðin hafa farið langt fram úr öllum væntingum. Við vissum að þetta yrði á milli tannanna á fólki og það var líka alltaf planið. Tónlist er 80% markaðssetning og hann sagði strax: „Leyfðu mér bara að sjá um þetta!“ Og hann sá um þetta. Hann hélt svakalegt útgáfuteiti, lagið fékk yfir 10.000 spilanir, strax fyrsta daginn og þetta var bara endalaust,“ segir Ingimar um lag þeirra félaga, Prettyboitjokko, sem sprengdi hlustunarskalann um leið og það kom út. 

„Ég hef bara fundið fyrir því að fólk fílar þetta og það er bara það besta. Amma mín sem er 70 og eitthvað ára gömul sendi á mig, að hún dýrkar lagið. Það er mjög mikil ást. Það er líka ánægjulegt að sjá leikskólabörn úti í sólinni syngjandi og dansandi við lagið.

Og auðvitað alltaf þegar eitthvað springur út eins og Patti og lögin okkar hafa gert, þá kemur ávallt einhver neikvæðni í kjölfarið en maður horfir bara framhjá því og heldur áfram,“ segir Ingimar sem er mjög sáttur með undirtektirnar. 

Kannski Eurovision, einn daginn! 

Það sem við teljum niður mínúturnar í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og Patrik nú þegar búinn að negla niður stíl hinnar fullkomnu „Euro-poppstjörnu“ þá verðum við að forvitnast um það hvort að Eurovision-sviðið sé ekki næsta stopp strákanna. „Það væri eitthvað,“ segir Ingimar og skellihlær. 

„Mér finnst það ólíklegt en ég ætla alls ekki að útiloka það. Ég held samt að það sé mjög langt frá þeim langtímamarkmiðum sem Patti er að vinna með. Þegar og ef athyglin fer að dvína, þá kannski. Aldrei segja aldrei! Mögulega fer ég með öðrum listamönnum.“

Draumur að vinna með Chris Martin

Það er heilmargt að gerast hjá þessum unga manni og fara dagar hans og klukkutímar flestallir í það að semja og framleiða tónlist. „Ég vinn með nokkrum listamönnum í Los Angeles og skemmtilegu fönk-tvíeyki í Atlanta, sem er ótrúlega gaman. Mesti tíminn minn núna er samt að fara í Patta. Annars er ég alltaf að hoppa á milli Íslands og Bandaríkjanna og það kemur alveg að því að ég fari út. 

Maður eltir bara hjartað. Það var bara eitthvað sem sagði mér að vera áfram á Íslandi og hjálpa Patta og fylgja honum alla leið og gera með honum smáskífuna og nokkur viðbótarlög. Ef ég vil fara út á morgun þá bara fer ég út,“ segir framleiðandinn sem á stóra framtíð fyrir höndum sér. 

Draumur Ingimars er að vinna alltaf með stærri og stærri listamönnum. Fyrst stærstu listamönnum á Íslandi og á endanum stærstu listamönnum í heimi og með þessu áframhaldi mun honum án efa takast það. „Ég vil vinna við hlið Chris Martin í Coldplay. Einkenni góðs framleiðanda eru þau að hann getur flakkað á milli. Eitt er að geta gert Prettyboitjokko-lög og annað er að gera Coldplay-lög en góður framleiðandi getur gert bæði.“

Ingimar í stúdíóinu þar sem hann eyðir mestum tíma sínum.
Ingimar í stúdíóinu þar sem hann eyðir mestum tíma sínum. Ljósmynd/Ingimar Birnir Tryggvason

„Hann henti mér í einhverjar demantsbuxur“

Ingimar á risasumar í vændum ásamt félaga sínum og ætla þeir að spila á vinsældir laga sinna út um allt land. Ingimar er þó meira en sáttur á hliðarlínunni og sér sig ekki alveg í hlutverki Prettyboitjokko en vill taka þátt í ævintýrinu. „Hann henti mér í einhverjar demantsbuxur um daginn. Ég fílaði það alveg betur en ég hélt. Ég hefði samt aldrei farið í þær án hans. Mér finnst alveg nóg að leyfa honum að skína.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Valdabarátta og persónuleg átök ríða húsum á vinnustað þínum. Máttarvöld heimsins, til dæmis foreldrar, sjá ekki sólina fyrir þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir