Steinunn Björk Bragadóttir
Sænska söngkonan Loreen hefur miklar mætur á Íslandi og er handviss um að hún hafi búið á Íslandi í fyrra lífi. Loreen flytur framlag Svía í Eurovision í ár og stígur á svið í fyrri undankeppninni næstkomandi þriðjudag.
Loreen er mikill reynslubolti hvað varðar Eurovision, enda sigraði hún keppnina árið 2012 með lagi sínu Euphoria. Hún segir að helsti munurinn á þátttöku hennar þá og núna er hversu mikið reynslan gerir gagn.
Loreen segist svo sannarlega finna fyrir pressu sem fyrrum sigurvegari Eurovision en hún sé búin að læra að breyta þeirri pressu yfir í aga. Leggur hún mikið upp úr því að vera með gott skipulag svo hún þurfi ekki upplifa óþarfa streitu.
Loreen er mikill Íslandsaðdáandi og hefur nokkrum sinnum komið til landsins. Finnst henni best að koma ein síns liðs því getur hún notið náttúrufegurðarinnar og andrúmsloftsins best. Ferð til Íslands verður einmitt það næsta á dagskrá hjá henni eftir Eurovision.
Tilgangur ferðarinnar er, að mestu leyti, nýtt samstarf hennar með íslenskum tónlistarmanni. Hún vildi þó ekki segja hver það væri en að það kæmi fljótlega í ljós.