Steinunn Björk Bragadóttir
skrifar frá Liverpool
Finninn Käärija segist ætla að koma til Íslands ef hann vinnur Eurovision, en hann segist þó varla hafa efni á Íslandsferð.
Käärijä cha-cha-cha-aði sig inn í hug og hjörtu Evrópubúa síðastliðið þriðjudagskvöld, þegar hann flutti framlag Finnlands í Eurovision-söngvakeppninni og rappaði sig inn í úrslitin.
Käärijä er mjög spenntur yfir því að vera kominn í Eurovision og kann vel að meta stuðninginn sem hann fær hvaðanæva að úr Evrópu.
Ef hann endar sem sigurvegari á laugardaginn ætlar hann að byrja á því að fá sér drykk. Vonast hann eftir því að geta fengið sér kampavín, en efast um að hafa efni á því.
„Bróðir minn getur kannski keypt það fyrir mig." segir Käärijä og hlær.
Käärijä segist vera spenntur fyrir því að koma til Íslands og vonast til þess að geta komið eftir að Eurovision-ævintýrinu lýkur. Myndi hann vilja spila fyrir landsmenn, ásamt því að baða sig í hinum ýmsu laugum sem finna má á landinu.
Eins og góðum Finna sæmir er Käärijä mikill áhugamaður um karókí, en það er mjög vinsæl iðja í heimalandi hans. Þegar hann var spurður hvort hann byggi yfir einhverjum leyndum hæfileikum sem við hefðum ekki enn séð, nefndi hann að hann væri góður í því að herma eftir röddum annarra söngvara.
Lá beinast við að spyrja vinsælasta Finna Evrópu um þessar mundir hver væri hans uppáhaldspersóna úr Múmínálfunum vinsælu. Nefndi Käärijä Pjakk/Hrekk og Snúð sem þær persónur sem hann héldi hvað mest upp á.