Svíþjóð vann Eurovision söngvakeppnina í gærkvöldi en það var lag söngkonunnar Loreen, Tattoo, sem tryggði Svíum sigurinn. Lagið hlaut þó hvergi 12 stig í atkvæðagreiðslu almennings en lag Finna sem lenti í öðru sæti keppninnar, vann hjörtu almennings og hlaut 12 stig frá 18 löndum, þar á meðal Íslandi.
Svíþjóð og Írland bera nú flesta sigra að baki í keppninni, en bæði löndin hafa unnið sjö sigra hvort um sig.
Þetta er í annað sinn sem Loreen vinnur Eurovision, en hún er önnur manneskjan í sögu keppninnar til að vinna í tvígang og fyrsta konan. Hún vann fyrst árið 2012 með laginu Euphoria. Fyrsta metið setti Johnny Logan frá Írlandi, en hann vann keppnina árið 1987 og aftur 1992.
Ísland tók ekki þátt í keppninni í gær þar sem lag Diljár Pétursdóttur Power, komst ekki áfram í undanriðli keppninnar s.l. fimmtudag. Lagið hefur annars notið mikilla vinsælda hér á landi.
Þess má geta að Ísland var í ellefta sæti í undanriðli keppninnar eða einu sæti frá að komast á úrslitakvöldið í gær, en frændur okkar í Danmörku gáfu okkur 12 stig í undankeppninni, aldrei þessu vant.