Hinn finnski Käärijä segist vera vonsvikinn með úrslit kvöldsins en þegar hann verði kominn aftur heim til Finnlands verði hann örugglega orðinn ánægður með úrslitin. Käärijä lenti í 2. sæti í Eurovision-söngvakeppninni og munaði aðeins 57 stigum á Finnlandi og Svíþjóð.
Svíþjóð vann Eurovision í sjöunda skipti.
„Við komum hingað til að vinna. Þannig að þó úrslitin séu söguleg, þá erum við líka vonsvikin. Já, þetta er eitthvað sem við munum verða ánægð með þegar við komum aftur heim. Við settum á svið algjörlega klikkaða sýningu í Liverpool,“ segir Käärijä í tilkynningu frá finnsa ríkisútvarpinu YLE.
Þetta er næst besti árangur Finna til þessa, en aðeins einu sinni hafa Finnar unnið Eurovision. Það var árið 2006.