Nei, það var ekki hins sænska Loreen sem kom, sá og sigraði þrátt fyrir að hafa unnið keppnina formlega heldur hin breska leikkona Hannah Waddingham sem var kynnir keppninnar.
Ljóst er að ljós Waddingham hefur sjaldan skinið skærar en breskir fjölmiðlar hafa verið duglegir að ausa hana lofi.
„Hún talaði lýtalausa frönsku, söng betur en flestir keppendurnir (enda úr söngleikjageiranum og afkomandi óperusöngvara), hún hló, ranghvolfdi augunum, táraðist, dansaði og gerði óþægileg augnablik þægilegri og leiðinlegar stundir skemmtilegri,“ segir í pistli The Times.
Waddingham sem er 48 ára er einna þekktust fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum Ted Lasso.
„Hún var alltaf óaðfinnanleg til fara. Hún nýtti hverja einustu pallíettu til fulls og missti aldrei af tækifærinu til þess að sýna allar sínar bestu hliðar. Hún endurskilgreindi glamúr.“
Hún hefur unnið sleitulaust frá því hún útskrifaðist úr leiklistarskóla og þá helst á sviði.
„Það gekk illa að fá hlutverk í sjónvarpi. Þeir sem þar ráða kjósa að líta framhjá fólki sem er með bakgrunn úr söngleikjum. Þeir eru ekki teknir alvarlega sem leikarar. Allir halda að þeir geti bara sungið og dansað og verið með „djass hendur“. En það er ekki þannig. Þeir eru bara þannig því það er það sem þarf að gera í söngleikjum. Ef þeir þyrftu að gera eitthvað annað þá myndu þeir gera það,“ segir Waddingham í viðtali við The Times.
„Ég þurfti að fara til Bandaríkjanna til þess að vera tekin alvarlega. Ég hugsaði bara með mér, ég veit að ég get þetta. Ég ætla bara að berja á dyrnar þar til einhver opnar þær.“
Waddingham er einhleyp og á níu ára dóttur sem er haldin sjálfsofnæmissjúkdóminn Henoch-Schönlein purpura. Hún leggur mikla áherslu á að ná að sameina móðurhlutverkið án þess að það komi niður á framanum.
„Ég hef lagt mikið á mig til þess að komast hingað og ég hef þurft að berjast fyrir því að starfsumhverfið sýni foreldrahlutverkinu tillitssemi.“ Hún vildi ekki þurfa að ferðast mikið og því kom hlutverkið í Ted Lasso sem himnasending. Það er tekið upp í Richmond.
„Ég er einstætt foreldri, sem er á margan hátt frábært því þá getur maður mótað litlu veruna eins og maður vill. En stundum er þó ábyrgðartilfinningin yfirþyrmandi.“
Pabbi Waddingham var viðskiptamaður en móðurættin óperusöngvarar. Amma hennar og afi voru óperusöngvarar og mamma hennar var óperusöngkonan Melodie Kelly sem naut ákveðinnar velgengni en hún starfaði í kór English National Opera í 27 ár. Waddingham ólst því upp í leikhúsinu.
„Þarna sá ég alla þessa frægustu, Bryn Terfel og Lesley Garrett og naut allrar þessarar tónlistar. En það var engin lognmolla í kringum okkur. Við vorum mjög jarðbundin. Ég sá hvað mamma lagði hart að sér. Það kom ekkert annað til greina hjá mér en að helga mig listinni.“