Bresk-finnski hljómsveitarstjórinn Ross Jamie Collins hefur verið ráðinn í stöðu staðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2023-24. Collin er einungis 22 ára gamall.
„Ross Jamie Collins er ungur að árum en hefur þegar vakið athygli í tónlistarheiminum fyrir framúrskarandi tónlistarhæfileika og mikla persónutöfra,“ segir í tilkynningu.
Hann þreytti nýlega frumraun sína með Philharmonia-hljómsveitinni í Lundúnum ásamt stjörnufiðluleikaranum Randall Goosby. Þá stjórnaði Collins Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í ársbyrjun 2023.
Hann starfar nú um stundir undir sem Salonen-Fellow undir handarjaðri Esa-Pekka Salonen við Sinfóníuhljómsveitina í San Fransisco.
Collins er fæddur 2001 í Nottingham en fluttist sjö ára gamall til Helsinki og lærði hljómsveitarstjórn við fótskör finnska hljómsveitarstjóra og kennara Jorma Panula. Hann stofnaði sína eigin hljómsveit, Symphony Orchestra ROSSO, árið 2017 og stjórnaði sínum fyrstu hljómsveitartónleikum 15 ára gamall. Collins er nýútskrifaður úr framhaldsnámi við Colburn-konservatoríið í Los Angeles.
„Ég er himinlifandi að fá tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem staðarhljómsveitarstjóri. Frá fyrstu fundum mínum með hljómsveitinni fann ég hvernig andrúmsloftið sem tónlistarfólkið skapaði lét mér líða eins og heima hjá mér í Reykjavík. Ég get ekki beðið eftir því að snúa aftur í Hörpu til þess að deila meiri tónlist, brosum og hlátri með þessari frábæru hljómsveit sem veitir mér svo mikinn innblástur,“ er haft eftir Collins.