Sæmundur leitar réttar síns vegna Loreen

Sæmundur Þór Helgason vill vekja athygli á því að höfundarréttur …
Sæmundur Þór Helgason vill vekja athygli á því að höfundarréttur sé á bak við hvaða listaverk sem er. Aðsend mynd/Verena Blok/Sæmundu Þór Helgason

Listamaðurinn Sæmundur Þór Helgason hefur leitað til Myndstefs vegna höfundarréttar síns á verkinu Mantis. Þetta gerir hann vegna þeirra líkinda á milli klæðnaðar Loreen, sigurvegara nýliðinnar Eurovision-keppni, og hans eigin verks. 

Myndstef, sem sér um höfundaréttargæslu myndhöfunda á Íslandi, ráðlagði honum þó að stíga varlega til jarðar og ekki fara geyst í neinar yfirlýsingar. Myndstef sagði honum að ekkert væri svart og hvítt í þessum efnum, og svona mál geti verið ansi flókin og svigna í báðar áttir.

„Bæði er eflaust hægt að færa rök fyrir líkindum, en einnig á hinn bóginn. Það sem ég gæti samt gert er að vekja athygli á þessum líkindum verkanna tveggja og velta upp þeim möguleika að þau hafi séð Mantis,“ segir Sæmundur að hafi fylgt svarinu frá Myndstefi.

Var bent á líkindin á úrslitakvöldinu sjálfu

Sjálfur segist Sæmundur ekki fylgjast með Eurovision-keppninni. Hann hafi þó byrjað að fá send skilaboð frá vinum og vandamönnum sem voru að horfa á úrslit keppninnar og tóku eftir líkindunum við stuttmynd Sæmundar.

„Það var fyrst þá sem ég sá þessi sláandi líkindi á milli útlits Loreen og Anto López Espinosa, aðalpersónu myndarinnar.“

Í viðtali við SVT segir Sæmundur skilja að menning sé oft byggð á einhvers konar menningarnámi. Í þessu tilfelli hafi líkindin þó verið sláandi.

„Því miður virðist það vera sem svo að í nútímasamfélagi sé það samþykkt að verk listamanna sé notað af stórfyrirtækjum og tískumerkjum án þess að listamannanna sjálfra sé getið eða þeir fái borgað fyrir vinnuna. Oftast komast þau upp með það,“ segir Sæmundur.

Vilji hann því varpa fram þeirri spurningu hvort ekki sé hægt að fá innblástur frá öðrum af meiri virðingu. 

Aðsend mynd/Sæmundur Þór Helgason

Skýr skilaboð

Þótt Sæmundur sjái ekki málaferli neins konar í kortunum finnst honum mikilvægt að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.

„Það er mikilvægt að almenningur geri sér grein fyrir því að sjónlistarverkið er einnig höfundaverndað, líkt og tónverk, og það megi einnig vera á varðbergi þar og sýna sjónlist þá virðingu, þó vissulega sé það algengara að eftir Eurovision bendi fólk á líkindi vinningslagsins við eitthvað þegar útgefið lag.

Stuttmyndin afrakstur dvalar í Rijksakademie

Mantis er sci-fi stuttmynd sem Sæmundur skrifaði og leikstýrði árið 2022 þegar hann var í listaresidensíu hjá Rijksakademie van Beeldende Kunsten í Amsterdam.

Stuttmyndin fjallar um listakvár sem framleiðir Solar Plexus Pressure Belt™, djúpþrýstingstækni sem dregur úr fjárhagskvíða. Eitt kvöldið er aðalpersóna myndarinnar skyndilega brottnumin af geimverum. Stuttu síðar tekur útlit og skapið hennar að breytast.

Sjálfur er Sæmundur búsettur í Amsterdam þar sem hann vinnur að myndlist, tískuhönnun og kvikmyndagerð. Einnig kennir hann myndlist við listaháskólann Gerrit Rietveld Akademie í Amsterdam.

Lítil viðbrögð frá Svíunum sjálfum

Sæmundur segir að lítið hafi verið um viðbrögð frá þeim sem stóðu að baki atriði Loreen. Eina sem hann veit af er að blaðamaður sænska ríkisútvarpsins hafi haft samband við Eurovision-teymi þeirra Svía til að spyrja út í þessi líkindi. 

„Einu svörin sem bárust voru þau að þau hafi verið undir áhrifum frá marokkóskri menningu, kvikmyndinni Dune og mótorhjólakúltur. Þau segjast ekki hafa séð Mantis,“ segir Sæmundur.

Aðsend mynd/Sæmundur Þór Helgason
Aðsend mynd/Sæmundur Þór Helgason





mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar