Leikarinn Jude Law lagði mikið á sig fyrir hlutverk hins illa lyktandi Hinriks VIII. í kvikmyndinni Firebrand. Lét hann útbúa ilmvatn sem lyktaði eins og blóð, saur og sviti til að lifa sig inn í hlutverkið.
Law sagðist hafa lesið ýmsar áhugaverðar lýsingar á því hvernig fólk gat fundið lyktina af Hinriki á milli herbergja og vildi hann lykta jafn illa og hann meðan á tökum stóð. Fékk hann ilmvatnsgerðarkonu til að blanda ilmvatnið saman sem hann í fyrstu notaði í hófi. Fljótlega var hann þó farinn að spreyja því í ansi miklu magni á sig.
Ekki voru þó allir á tökustað ánægðir með uppátækið. Leikstjóri myndarinnar segist hugsa með hryllingi til lyktarinnar af Law og að hún hafi tekið yfir allt upptökuverið.