Leikkonan og fyrrum sunddrottningin, Ragnheiður Ragnarsdóttir, fer með hlutverk í annarri þáttaröð af fantasíuþáttunum The Wheel of Time. Tökum lauk í fyrra en enn er óvíst hvenær þáttaröðin fer í sýningu.
Ragnheiður, sem þekkist einnig undir nafninu Ragga Ragnars, fer með hlutverk spjótmærinnar Baine og er ein af nýjum persónum þáttanna. Kemur þetta fram á IMDB-síðu Röggu. Þættirnir hófu göngu sína á streymisveitunni Amazone Prime árið 2021 og nú þegar er búið að staðfesta að þriðja þáttaröðin verði framleidd.
Þetta er ekki fyrsta fantasíuhlutverk Röggu, en hún fór með hlutverk Gunnhildar, eiginkonu Björns Járnsíðu, í þáttunum Vikings sem hafa notið mikilla vinsælda. Einnig ljáði hún persónunni Tonnu rödd sína í tölvuleiknum Assassin's Creed: Valhalla.