Aldís Amah Hamilton hefur tekið við keflinu af Val Frey Einarssyni sem ný rödd Vodafone. Með þessu er Aldís orðin fyrsta konan til þess að vera föst vörumerkjarödd fjarskiptafélags á Íslandi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vodafone.
Haft er eftir Lilju Kristínu Birgisdóttur, forstöðumanni markaðs- og samskiptamála hjá Vodafone. Hún segir fyrirtækið vera ánægt með fenginn. Rödd Aldísar smellpassi við nýjan tón sem vörumerkið gefi nú frá sér.
Þá sé Aldís spennt fyrir komandi verkefni.
„Vodafone var mitt fyrsta síma fyrirtæki. Ég er meira að segja ennþá með sama númerið. Ég er spennt og þakklát fyrir traustið. Það er mikil gjöf að fá að taka við af Val og mun gera mitt besta til að fylla í hans flottu fótspor,“ er haft eftir Aldísi.
Aldísi þekkja landsmenn mögulega úr sjónvarðsþáttunum Svörtu sandar eða Katla. Hún hlaut tilnefningu til Edduverðlauna árið 2023 sem leikkona í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Svörtu söndum.