Jeff Bezos, stofnandi vefverslunarrisans Amazon, og Lauren Sanchez eru trúlofuð. Í vikunni fór orðrómur á kreik um trúlofun parsins þar sem Sanchez hefur sést víða með stóran demantshring á baugfingri.
Mirror greindi fyrst frá trúlofuninni en rúmlega fimm ár eru liðin frá því að parið opinberaði samband sitt. Sagt er að Bezos hafi beðið sinnar heittelskuðu um borð í nýju 70 milljarða snekkju sinni, Koru, en parið hefur verið á eyjahoppi undanfarnar vikur og eru nú stödd í stjörnufans á Cannes-kvikmyndahátíðinni.
Bezos og Sanchez kynntust í gegnum fyrrverandi eiginmann Sanchez, Patrick Whitesell, stjórnarformann Endeavour Group Holdings. Sanchez og Whitesell voru gift í 13 ár og skildu formlega árið 2019.
Sama ár skildi Bezos einnig við eiginkonu sína til 25 ára, Mackenzie Scott. Sagt er að Bezos og Sanchez hafi átt í ástarsambandi í átta mánuði fyrir skilnaði sína en þau opinberuðu samband sitt fljótlega þar á eftir.