Einstakur söngferill að baki

Stórstjarnan Tina Turner átti einstakan söngferil.
Stórstjarnan Tina Turner átti einstakan söngferil. AFP

Margir hafa minnast Tinu Turner sem lést í gær, 83 ára að aldri. Turner var þekkt fyrir magnaðan söngferil sem spannaði meira en sex áratugi og hafði mikil áhrif á popp- og rokktónlist. Fjölmiðlar hafa dregið fram svipmynd af ferli söngkonunnar, sem telja má einn þann farsælasta í sögu tónlistarkvenna. 

Tina Turner, eða Anna Mae Bullock að skírnarnafni, fæddist árið 1939 inn í fátæka bóndafjölskyldu í Tennessee í suðurríkjum Bandaríkjanna. Fátækt fjölskyldunnar setti sitt mark á fyrstu ár ævi söngkonunnar og var fjölskyldulíf hennar stormasamt. Uppeldi Önnu Mae og systur hennar var í höndum foreldra þeirra þangað til faðir þeirra, og síðar móðir, yfirgáfu þær og aðrir ættingjar þeirra tóku systurnar að sér. 

Ike og Tina Turner.
Ike og Tina Turner.

Anna Mae hafði uppgötvað ástríðu sína fyrir söng og tónlist snemma þegar hún fékk að syngja í kirkjukór heimabæjar síns, en það var ekki fyrr en hún flutti til St. Louis í Missouri sem hún fékk smjörþefinn af frægð. Anna Mae fluttist til St. Louis 16 ára en stuttu eftir það kynntist hún Ike Turner, gítarleikara og aðalsöngvara í hljómsveit. Turner var átta árum eldri en Anna Mae og hafði á þessum tíma öðlast talsverða frægð í gegnum plötuna sína, Rocket 88, sem sumir telja hina fyrstu svokölluðu rokkplötu.

The Ike and Tina Turner Revue á tónleikum.
The Ike and Tina Turner Revue á tónleikum. Ljósmynd/Wikipedia.org/Heinrich Klaffs

Tina Turner verður til

Listamannanafnið Tina Turner varð til þegar hún og Ike gáfu saman út lagið A Fool in Love árið 1960. Í framhaldi af útgáfu lagsins varð til listamannadúóið the Ike & Tina Turner Revue. Náði dúóið gífurlegum vinsældum og á næstu 15 árum eftir þetta fyrsta lag gáfu þau út 25 plötur sem náðu hátt á helstu tónlistarlistum. Sjarmi dúósins var ekki síst fólginn í því að, tveimur árum eftir að A Fool in Love kom út, höfðu þau Tina og Ike gifst hvort öðru. 

Mörg lög Turner hjónanna endurspegluðu vandamál þeirra og sem dæmi um það nefna It’s Gonna Work Out Fine og vinsælasta lag þeirra, Proud Mary. Í þessum lögum vinnur seiðandi sviðsframkoma Tinu vel með tilfinningalegum söng, líkt og í flestum öðrum lögum sem hún kom að. 

Hefur sólóferil á fertugsaldri

Árið 1978 skildu hjónin Ike og Tina Turner og segja má að Tina hafi komið út sterkari eftir skilnaðinn, en þá hófst hennar gífurlega farsæli sólóferill. Tina gaf 44 ára út sína fyrstu sólóplötu, Private Dancer, þar sem finna má hennar frægasta lag, What’s Love Got To Do With It, sem vann tvö Grammy verðlaun. Á plötunni er einnig The Best, sem allir aðdáendur söngkonunnar ættu að kannast við. 

Á sólóferli sínum prófaði Tina ýmislegt nýtt, en þar á meðal lék hún á móti Mel Gibson í stórmyndinni Mad Max: Beyond Thunderdome og kom að skrifum ævisögu sinnar, I, Tina. Í bókinni var greint í smáatriðum frá ævi hennar, þar á meðal heimilisofbeldinu sem Ike Turner beitti hana í 18 ára hjónabandi þeirra. 

Ný ást

Tina fann ástina á ný árið 1985 þegar hún kynntist svissneska tónlistarframleiðandanum Erwin Bach. Það var ekki fyrr en 27 árum eftir kynni þeirra sem þau giftust árið 2013 og Tina gerðist svissneskur ríkisborgari. Samband þeirra vakti þó nokkra athygli, enda Bach 16 árum yngri en söngkonan.

Tina lést í gær á heimili sínu í Sviss.
Tina lést í gær á heimili sínu í Sviss. AFP

Tina hafði glímt við mikil veikindi þegar hún lést á heimili sínu í Sviss í gær, en árið 2017 hafði hún undirgengið nýrnaígræðslu og árið áður greinst með krabbamein. Turner skilur eftir eiginmann sinn, Erwin Bach, og tvo syni, þá Ike Turner Jr. og Michael Turner. Tveir synir söngkonunnar eru látnir, Craig Turner, féll fyrir eigin hendi árið 2018 og Ronnie Turner, lést í desember 2022 af völdum ristilskrabbameins. Hennar verður minnst sem hæfileikaríkrar stórstjörnu sem ruddi brautina fyrir söngkonur á borð við Janet Jackson, Madonnu og Beyoncé.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar