Heiðraðu Tinu Turner með þessum lögum

Ein ástsælasta söngkona allra tíma, Tina Turner.
Ein ástsælasta söngkona allra tíma, Tina Turner. Samsett mynd

Í yfir 60 ár heillaði Tina Turner tónlistaraðdáendur víða um heim með sinni rafmögnuðu rödd, kraftmiklu framkomu, djarfa stíl og grípandi lögum. Heimurinn syrgir nú fallna stjörnu en Anna Mae Bullock, stúlkan frá Nutbush, Tennessee, tók sér listamannsnafnið Tina Turner og tók svo stuttu seinna yfir tónlistarheiminn. Turner lést 24. maí, 83 ára aldri, á heimili sínu í Kusnacht í Sviss eftir langvinn veikindi. 

Til að fagna lífi og ferli „drottningar rokksins“ eru hér nokkur af hennar bestu og vinsælustu lögum.

Nutbush City Limits – 1973

Lagið Nutbush City Limits fjallar um heimabæ Tinu Turner, Nutbush. Þetta er síðasta smáskífan sem hún gaf út ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum Ike Turner, en þau skildu örfáum árum síðar.

Steamy Window – 1989

Lagið Steamy Window er að finna á sjöundu stúdíóplötu söngkonunnar, Foreign Affairs, og náði fljótt inn á vinsældalista úti um allan heim, enda rjúkandi heitt. 

Let's Stay Together – 1983 

Tina Turner og synthpop–hópurinn Heaven 17 gerðu útgáfu af þessum vinsæla Al Green–slagara og varð það hennar stærsti sólósmellur á sínum tíma. Lagið náði meiri vinsældum en upprunaleg útgáfa Green.

Goldeneye – 1995

Lagið Goldeneye var þemalagið í samnefndri James Bond–mynd frá árinu 1995, með Pierce Brosnan í aðalhlutverki. Lagið var samið sérstaklega fyrir Turner af U2–meðlimunum Bono og The Edge.

River Deep – Mountain High - 1966

Bandaríski upptökustjórinn og útgefandinn Phil Spector, var þekktur fyrir að vera heilinn á bak við einhver af þekktustu lögum 6. og 7. áratugarins. Lagið River Deep – Mountain High  var samið af Spector, Ellie Greenwich og Jeff Berry og kom fyrst út í flutningi Ike og Tinu Turner. 

Proud Mary – 1970/1994

Bandaríska hljómsveitin Creedence Clearwater Revival tók lagið fyrst upp árið 1969 en það er án efa þekktast í flutningi Tinu Turner. Árið 1970 flutti hún það ásamt Ike Turner, en söngkonan tók upp mun kraftmeiri útgáfu af laginu fyrir kvikmyndina What's Love Got to Do With It og hefur það verið eitt af hennar mest einkennandi lögum.

The Best – 1989 

Lagið The Best er sannkölluð kraft-ballaða. Söngkonan Bonnie Tyler tók lagið upp ári á undan Turner en Tina sló í gegn með ábreiðu árið 1989 og eignaði sér lagið, enda var hún „Simply the Best.“

What's Love Got to Do with It – 1984

Lagið What's Love Got to Do with It endaði á því að verða vinsælasta lag Turner frá upphafi og er að finna á plötunni Private Dancer frá árinu 1984. 

Better Be Good To Me – 1984

Lagið var upphaflega gefið út árið 1981 af hljómsveitinni Spider frá New York. Turner hljóðritaði sína útgáfu af laginu þremur árum á eftir Spider og sló lagið rækilega í gegn. Hún hlaut Grammy-verðlaunin fyrir „Best Rock Vocal Performance - Female“ fyrir flutning sinn. 

A Fool in Love – 1960

Lagið A Fool in Love var fyrsta smáskífa Ike og Tinu Turner. Það var gefið út af Sue Records árið 1960. Lagið er ein af fyrstu R&B smáskífunum sem tókst að komast inn á Billboard Hot 100 listann í Bandaríkjunum og seldist í yfir milljón eintökum. Þetta er lagið sem byrjaði allt.

We Don't Need Another Hero – 1985

Lagið We Don't Need Another Hero var samið af Graham Lyle og Terry Britten og hljóðritað af Tinu Turner árið 1985. Lagið hljómaði í kvikmyndinni Mad Max Beyond Thunderdome, en Turner fór þar með eitt af aðalhlutverkunum ásamt Mel Gibson.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar