Áttræð kona lést í kjölfar áverka sem hún hlaut þegar lögregla á mótorhjóli keyrði á hana á miklum hraða. Lögreglan var að fylgja Sophie hertogaynju af Edinborg úr garðveislu í Buckinghamhöll. Fjölskylda konunnar kennir ekki Sophie hertogaynju um harmleikinn, heldur bendir á að lögreglan verði að gera betur til þess að tryggja öryggi almennings við aðstæður sem þessar.
Helen Holland hlaut mikla heilaáverka, beinbrot og innvortis meiðsl. Hún barðist fyrir lífi sínu í tvær vikur uns fjölskyldan ákvað að slökkva á öndunarvélinni.
„Við vitum að það þarf að vernda konungsfjölskylduna en það má ekki verða til þess að öryggi okkar sé ógnað,“ segir Martin Holland, sonur konunnar.
„Þetta er ekki Sophie að kenna. Lögreglan gerði þetta. Þessu er ekki á nokkurn hátt beint gegn konungsfjölskyldunni. Mamma mín elskaði hana. Þetta eru mótorhjólin sem þeysast fram fyrir umferð til þess að stöðva umferð á gatnamótum áður en mikilvæga fólkið keyrir í gegn. Þeir verða að finna betri leiðir en þetta.“