Gleðifréttir fyrir aðdáendur Spice Girls eru handan við hornið. Allar fimm kryddpíurnar munu nefnilega koma saman í fyrsta skiptið síðan á lokahátíð Ólympíuleikanna í London árið 2012. Ekki er komið á hreint hvað aðdáendur eigi að búa sig undir en tilkynning verður gefin út fljótlega.
Þetta segir Íslandsvinkonan Mel B í viðtali við The Sun. Hún vildi þó ekki fara út í nánari smáatriði hvað væri í vændum en lofaði því að allar fimm myndu koma saman á næstunni og að aðdáendur verði mjög hrifnir af nýja uppátækinu.
Spice Girls lagði af stað í tónleikaferð árið 2019 en Victoria Beckham var þá fjarri góðu gamni. Beckham sagði fjarveruna vera vegna þess hversu tímafrekt það væri að halda uppi tískumerki sínu. Núna sé tímasetningin hins vegar fullkomin og hefur Beckham víst samþykkt að taka hljóðnemann upp á ný.