Kvikmyndin Anatomie d'une chute í leikstjórn Justine Triet hlaut gullpálmann (f. Palme d'Or) á kvikmyndahátíðinni í Cannes nú í kvöld. Er þetta í þriðja sinn sem kvikmynd í leikstjórn konu hlýtur þessi virtu kvikmyndaverðlaun.
Triet er frönsk og þegar hún tók við verðlaununum í kvöld gagnrýndi hún frönsku ríkisstjórnina harðlega.
„Gríðarleg alda mótmæla hefur verið í landinu vegna breytinga á eftirlaunaaldri. Það er áfall að sjá hvernig þessi mótmæli hafa verið kæfð,“ sagði Trier er hún tók við gullpálmanum.
Gullpálminn eru stærstu verðlaun kvikmyndahátíðarinnar. 21 kvikmynd voru tilnefndar til verðlaunanna og þar af var sjö leikstýrt af konum.
Í Anatomie d'une chute fer hundurinn Messi með hlutverk og vann hann hundapálmann í gær fyrir hlutverk sitt.
Tran Anh Hung hlaut verðlaun í flokki leikstjóra fyrir kvikmyndina The Pot-au-Feu. Koji Yakusho var valinn leikari ársins fyrir myndina Perfect Days en Merve Dizdar var valin leikkona ársins fyrir kvikmyndina About Dry Grasses.
Þykja konur hafa verið áberandi á kvikmyndahátíðinni í ár og minntist bandaríska leikkonan Jane Fonda á það þegar hún veitti gullpálmann. „Það voru aldrei konur í flokki leikstjóra þá og okkur datt aldrei í hug að það væri eitthvað rangt við það,“ sagði leikkonan þegar hún minntist sinnar fyrstu hátíðari í Cannes árið 1963. „Við höfum náð miklum árangri síðan þá,“ bætti Fonda við.