Auðunn Blöndal efndi margra ára gamalt loforð í gær þegar hann fór á flöskuborð með Sigtryggi Arnari Björnssyni og öðrum leikmönnum Tindastóls.
Auðunn er Sauðkrækingur sjálfur, spilaði knattspyrnu með Tindastóli, og hefur ekki leynt stuðningi sínum við körfuknattleiksliðið á síðustu árum.
Í færslu sem Auðunn birti á Instagram má sjá skjáskot af samskiptum hans við Sigtrygg Arnar áður en Sigtryggur gekk í þeirra raðir þar sem Auðunn biður hann að „koma sér norður“.
Sigtryggur svarar þá að þeir sveitungar muni taka flöskuborð þegar hann „komi með titilinn heim“ og Auðunn svarar um hæl: „Lofa!!“
Karlalið Tindstóls varð Íslandsmeistari í körfubolta á uppstigningardag þegar þeir unnu dramatískan sigur á Val í oddaleik. Auðunn lét sig ekki vanta á pallanna þá og var klæddur í vínrauða Tindastólstreyju.
Í gær var svo komið að því að efna loforðið en Auðunn birti fleiri myndir af kvöldinu þar sem hann fór meðal annars með liðinu í keilu, á veitingahús og í karókí með söngvaranum Sverri Bergmann.
Að lokum var loforðið um flöskuborð efnt á skemmtistaðnum Auto þar sem Auðunn og Sigtryggur birtu mynd af sér saman við góðar undirtektir. Meðal þeirra sem settu athugasemd við færsluna var Taiwo Badmus, leikmaður Tindstóls, sem segir Auðun vera mann orða sinna.