Rokkgyðjan Tina Turner sem lést á dögunum, 83 ára gömul, glímdi við ýmsa erfiðleika. Hún sagðist á tímabili hafa hatað sjálfa sig og fyrst orðið hamingjusöm þegar hún skildi og fór að stjórna lífi sínu.
Fyrri eiginmaður hennar, Ike Turner, var ofbeldismaður. Eitt sinn skvetti hann sjóðheitu kaffi í andlit hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut þriðja stigs brunasár, hann kjálkabraut hana og veitti henni svo mörg kjaftshögg að blóð seytlaði niður háls hennar þegar hún söng.
Hann hélt ítrekað framhjá henni. Hún varð svo vansæl að hún reyndi að fyrirfara sér. Ofbeldið og vansældin varð til þess að hún fékk martraðir næstu áratugina. Hún yfirgaf Ike loks og sagði: „Þegar ég fór óttaðist ég ekki að hann myndi drepa mig því ég var þegar dáin.”
Seinna á ævinni fyrirgaf hún honum og sagði: „Það er sársaukafullt að rifja upp þessa tíma, en á ákveðnum tímapunkti er það fyrirgefningin sem er sterkust – að fyrirgefa þýðir að sleppa. Ef maður fyrirgefur ekki þá þjáist maður vegna þess að maður hugsar um hlutina aftur og aftur.“