Kynnir Skjaldborgarhátíðarinnar á Patreksfirði segir stemminguna hafa verið mjög góða á svæðinu. Hátíðin í ár hafi verið með þeim betur sóttari en hátíðin hefur verið haldin í sextán ár aða frá árinu 2007.
„Þetta er heimildamyndahátíð á Patreksfirði í einu elsta bíóhúsi landsins Skjaldborgarbíói, sem er 160 sæta bíóhús með öllum nýtískugræjum. Ef þú vilt fá frábæra stemmingu á líkama og sál og vera í góðum hópi fólks og tala um heimildamyndir og lífið í sínu víðasta samhengi myndi ég koma. Ef þú kaupir þér hátíðarpassa þá færðu fiskiveislu í boði Odda sem er fiskvinnslufyrirtækið á svæðinu, plokkfiskur er framreiddur í boði kvenfélagsins, það er ball, þannig það er bara einhvern veginn allt sem hugurinn girnist á þessari hátíð,“ segir Ragnar Ísleifur Bragason, kynnir hátíðarinnar í samtali við mbl.is.
Sautján heimildarmyndir eru frumsýndar á hátíðinni í ár. Hátíðin var sett á föstudag og lýkur með pompi og prakt í kvöld.
Ragnar hefur verið kynnir hátíðarinnar í tíu ár og segir hann andrúmsloftið í bænum, móttökur íbúa og verðlaunagripinn, Einarinn, standa upp úr.
Verðlaunaafhending hátíðarinnar fer fram í kringum miðnætti í kvöld en nýr Einar, sem er áhorfendaverðlaunagripur, er smíðaður ár hvert.
„Áhorfendakosning fer fram í bíóinu eftir síðustu myndina, um tíu leytið í köld, svo eru þau tilkynnt á balli ásamt þessum dómnefndarverðlaunum sem eru önnur verðlaun sem eru ákveðin af þriggja manna dómnefnd sem er alltaf ólík eftir árum,“ segir Ragnar en ókeypis er í bíó á hátíðinni.
Hann segir greinilegt að hræðslan sé endanlega farin úr fólki en hátíðin í ár sé með þeim betur sóttari.
Ragnar segist þakklátur Patreksfirði og íbúum á svæðinu.
„Þakkir til Patreksfjarðar, fólksins á Patreksfirði og fjallanna í kringum Patreksfjörð þakka þeim kannski sérstaklega,“ segir Ragnar að lokum.
Frekari umfjöllun um hátíðina úr Morgunblaði föstudagsins má sjá með því að smella hér.