Svo virðist sem vinsældir raunveruleikaþáttanna Love Island fari dvínandi, en hátt í 70% aðdáenda segjast ekki ætla að horfa á 10. þáttaröðina sem fer í loftið næstkomandi mánudag.
Love Island hefur notið gríðarlegra vinsælda undanfarin átta ár og verið stökkpallur fyrir stjörnur á borð við Molly-Mae Hague og Dani Dyer. Þættirnir hafa verið sérstaklega vinsælir meðal ungra áhorfenda, en undanfarið hafa þáttunum borist sífellt fleiri kvartanir frá ósáttum áhorfendum.
Áhorfendum fækkaði um rúma milljón þegar vetrarþáttaröðin var sýnd í ársbyrjun, en fram kemur á vef Daily Mail að áhorfendur hafi kvartað yfir því að þátttakendur væru að sækjast eftir frægð en ekki leita að ástinni. Þá voru margir sem sögðu þáttaröðina einfaldlega hafa verið leiðinlega og að handritið hefði verið of augljóst.