Margir aðdáendur söngkonunnar Taylor Swift hafa kvartað undan minnisleysi sem þau upplifa eftir að hafa sótt tónleika hjá söngkonunni góðkunnu. Margir tónleikafarar hafa tilkynnt að eftir þriggja klukkutíma tónleika og yfir 40 lög muna þau ekki eftir einu einasta atviki sem átti sér stað á tónleikunum sjálfum.
Fréttastofa BBC greinir frá þessu.
Þetta ku hljóma ótrúlegt en ýmsir sálfræðingar halda því fram að ósköp eðlilegar ástæður geti verið að baki þessu svokallaða minnisleysi eftir tónleika (e. post-concert amnesia). Þeir halda fram að tilfinningar aðdáendanna og tími geti útskýrt minnisleysið.
Aðdáendur Swift hafa undanfarna daga flykkst á samfélagsmiðla til að lýsa samviskubiti yfir því að muna ekki eftir tónleikunum. Michelle Phillips, fræðimaður í tónlistar sálfræði, segir að ekki þurfi að óttast þetta fyrirbæri þó að minnisleysi undir venjulegum kringumstæðum sé mjög alvarlegt.
Phillips segir að kannski muni aðdáendur aðeins eftir því sem þau einblýndu á á meðan að tónleikunum stóð.
„Þetta er einfaldlega þannig að þau kóða suma hluti atburðarins í minni sitt en ekki aðra. Sumir fylgjast kannski bara með danshreyfingunum og muna því bara eftir því en ekki tónlistinni.“
Phillips minnir jafnframt á að tíminn fljúgi þegar maður er að skemmta sér. Að sögn Phillips er það eðlilegt þegar að aðdáendur eru spenntir og djúpt sökknir í viðburðin að þeim líði eins og tíminn hafi hrökkið frá þeim.
Hún bendir jafnframt á að gífurlega mikið fari fram á sviðinu nú til dags með tilheyrandi ljósum. búningaskiptum og dönsurum að eðlilegt sé að áhorfendur nái ekki að meðtaka öll smáatriðin.