Nú geta aðdáendur þáttanna Beðmál í borginni tekið gleði sína því leikkonan Kim Cattrall sem varð heimskunn fyrir túlkun sína á Samönthu Jones mun stíga inn í hlutverkið á ný í annarri þáttaröð And Just Like That.
Cattrall, sem hefur átt í mjög opinberri deilu við leikkonuna Söruh Jessicu Parker, sem fer með hlutverk Carrie Bradshaw, mætti á tökustað í mars. Öllu var haldið mjög leyndu og vissu flestir starfsmenn þáttanna ekki af komu Cattrall, enda var senunni haldið utan handritsins og nafn leikkonunnar hvergi sjáanlegt.
Parker og Cattrell áttu í stöðugum illdeilum og voru óhóflegar kröfur þeirra síðarnefndu víst ein af ástæðum þess að þriðja kvikmyndin af Beðmálum í borginni fór aldrei áleiðis í framleiðslu árið 2017.
Nokkrum árum seinna þegar ákveðið var að hefja upptökur á nýrri seríu kaus Cattrall að snúa ekki aftur enda komin með nóg af umhverfinu í kringum þættina. Leikkonan kom þó opinberlega fram og sagðist aldrei hafa verið beðin um að taka þátt í nýju seríunni. „Ég gerði tilfinningar mínar mjög ljósar eftir það sem átti að verða þriðja kvikmyndin, ég komst svo að þessu með þættina eins og allir aðrir – á samfélagsmiðlum,“ sagði Cattrall í viðtali við Variety árið 2022.
Michael Patrick King, handritshöfundur og framleiðandi, sagði sama ár og við sama miðil: „Ef það væru töfrar þá væri hreint frábært að fá Samönthu aftur. Ég geri mér þó engar raunverulega væntingar um að Kim Cattrall birtist á ný.“
Einhverjir töfrar liggja í loftinu þar sem ósk King rættist og fá aðdáendur þáttanna að sjá fjórmenningana sameinaða á skjánum í sumar en tökum lauk hinn 28. mars og verða þeir frumsýndir 22. júní á HBO Max.