„Sófía, ég má til með að segja: Geggjaðir áheyrendur. Þó verð ég að bæta við: Þarna er náungi sem heldur uppi merki til að eyðileggja tónleikana. Ég afneita, ég afneita þessu helvítis flaggi. Ég biðst forláts. Þetta er út í hött, lagsi. Höldum stjórnmálum fyrir utan þetta. Það eru tóm leiðindi.“
Þannig komst Phil Anselmo söngvari Pantera að orði undir lok tónleika bandaríska málmbandsins í Sófíu, höfuðborg Búlgaríu, um liðna helgi. Flaggið sem hann vísaði til var fáni suðurríkjanna sem í huga margra er tákngervingur rasisma og til marks um að þeim sem honum hampa þyki hvíti kynstofninn merkilegri en aðrir.
Anselmo hefur löngum verið spyrtur við þann hóp, meðal annars vegna tengsla Pantera, sem er upprunalega frá Arlington í Texas, við téðan fána og umdeildra ummæla, nú síðast á Dimebash, minningartónleikum um Dimebag Darrell gítarleikara Pantera árið 2016, þegar upptökur náðust af Anselmo að heilsa að nasistasið og hrópa „máttur hins hvíta“ yfir undrandi mannhafið.
Þessi hegðun söngvarans varð meðal annars til þess að Pantera, sem túrar nú á ný eftir tveggja áratuga hlé, var hent út af Rock am Ring- og Rock im Park-hátíðunum í Þýskalandi í sumar, auk þess sem tónleikum bandsins í Austurríki var aflýst.
Anselmo gaf upphaflega þá skýringu á Dimebash-atvikinu að hann hefði verið að vísa í allt hvítvínið sem beið hans að tjaldabaki. Fáir keyptu þá skýringu og aursletturnar gengu yfir söngvarann, meðal annars frá Robb Flynn, gítarleikara Machine Head, sem einnig kom fram á tónleikunum. Hann las Anselmo pistilinn í 11 mínútna löngu myndbandi sem birt var á samfélagsmiðlum og kallaði hann efnislega ósóma málmheima og hét því að leika aldrei framar lög eftir Pantera. Scott Ian gítarleikari Anthrax, sem er gyðingur, reif líka upp spjald yfir hausamótunum á kauða og bauð honum að styrkja Simon Wiesenthal-stofnunina – sem Anselmo þáði um hæl.
Skömmu síðar baðst Anselmo formlega afsökunar. Atvikið hefði ekki endurspeglað hans sanna eðli, allir sem hann þekktu gætu skrifað upp á það. „Ég bið þá sem ég kann að hafa móðgað 1000% afsökunar vegna þess að það er nákvæmlega það sem þið hefðuð átt að gera, móðgast,“ stóð í yfirlýsingu hans.
Í viðtali við Sirius FM gat Anselmo þess að tveir eða þrír tónleikagestir í fremstu röð hefðu ögrað honum meðan á gigginu stóð. Ítrekað kallað hann rasista og hann á endanum misst þolinmæðina. „Þess vegna gerði ég það andstyggilegasta sem mér datt í hug.“
Spurður um atvikið í málmgagninu Kerrang! þremur árum síðar sagði Anselmo málið út í hött. „Ég segi litabrandara og búmm, það er engu líkara en að ég sé Hitler! Ég er ekki hann. Ég tek hverjum einstaklingi eins og hann er, eins og allir rökhneigðir menn myndu gera. Hjarta mitt er fullt af ást og mér semur við alla. Velkist menn í vafa um mínar pólitísku hneigðir ættu þeir að hugsa sig betur um. Ég ólst upp innan um leikhúsfólk, fólk af geðsjúkrahúsum og öllum stéttum – öllum húðlit, trúarbrögðum og gerðum. Frá mínum bæjardyrum séð er galið að menn á okkar tímum dæmi aðra út frá húðlit þeirra, uppruna eða trúarbrögðum. Ég er meinlaus náungi. Gamaldags í hugsun en alls ekki týpan sem hleypir öllu í bál og brand.“
Nánar er fjallað um Phil Anselmo í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.