Í sinni fyrstu bók, Pageboy, fjallar leikarinn Elliot Page mjög opinskátt um líf sitt og ræðir árin í Hollywood. Leikarinn gerði garðinn frægan í titilhlutverki kvikmyndarinnar Juno árið 2007 og fjallar mikið um lífið á tökustað kvikmyndarinnar.
Page heldur því fram í bókinni að hann hafi átt í ástríðufullu ástarsambandi við mótleikara sinn, Oliviu Thirlby og að þau hafi stundað kynlíf öllum stundum á meðan tökutíma Juno stóð.
„Þrátt fyrir að vera jafngömul var hún mun þroskaðri en ég. Við löðuðumst að hvort öðru og hitinn var áþreifanlegur,“ skrifar leikarinn. Page, segir þau hafa eytt miklum tíma saman og að einn daginn á hótelherbergi hafi leikkonan horft djúpt í augu sín og sagt: „Ég laðast að þér.“
Kanadíski leikarinn var fljótur að játa svipaðar tilfinningar til Thirlby en hún lék bestu vinkonu Juno í kvikmyndinni. „Við fórum í sleik.“ Og samkvæmt leikaranum þá byrjaði parið að stunda kynlíf öllum stundum og alls staðar. „Við gerðum það á hótelherberginu hennar, hótelherberginu mínu, í hjólhýsunum okkar á setti, á veitingastöðum. Við gerðum það alls staðar,“ skrifar leikarinn.
Thirlby kom út sem tvíkynhneigð árið 2011 en hefur verið gift Jacques Pienaar frá árinu 2014. Page kom út úr skápnum árið 2014 og opinberaði sig trans árið 2020. Kynningarfulltrúi Thirlby hefur ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um samband leikaranna.