Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hvetur auðjöfurinn Elon Musk og aðra hans líka til þess að hanna umhverfisvænni ferðamáta og tónleikasvæði fyrir tónlistarfólk.
„Ég var að vona að Elon Musk og tæknigeiravinir hans myndu búa til rafknúnar tónlistarferðarútur eða sólar- og vindorkudrifin skemmtiferðaskip,“ segir Björk í samtali við AFP-fréttaveituna.
Þá veltir hún því upp hvort það væri ekki möguleiki að halda tónlistarhátíð eins og Coachella á skipi á hafi úti sem myndi ferðast um. Ekki væri þá þörf á því að fljúga á milli staða.
Sjálf hefur Björk verið hávær þegar kemur að umhverfismálum um langa hríð og segist halda í vonina um það að fólk fari að snúa við blaðinu og hugsa betur um umhverfið.
„Í Covid var fuglasöngurinn hærri, loftið hreinna, færri flugvélar á ferð og við vitum að ef við viljum bregðast hratt við, þá getum við það,“ segir Björk.
Tónlistarkonan býr sig nú undir tónleikaferðalag í Evrópu sem hefst í september. Til stóð að hún myndi koma fram á Íslandi en ekki fannst svið hér á landi sem var nógu stórt fyrir allt það sem fylgir tónleikunum.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem ekki fram á Íslandi á tónleikaferðalagi og það hryggir mig mjög [...] en ég reyndi mitt besta,“ segir hún.