Söngvarinn og skemmtikrafturinn Jógvan Hansen lenti illa í því á dögunum þegar hakkarar hökkuðu sig inn á Facebook-síðu hans og Instagram-síðu. Jógvan var búinn að vera á Facebook síðan 2008 og var með yfir 10.000 fylgjendur á Instagram.
Hakkararnir þóttust vera frá Instagram og buðu söngvaranum bláa merkið sem er ákveðið auðkennismerki um að fólk sé það sjálft. Hann var því bara mjög ánægður með skilaboðin enda nýbúinn að sækja um bláa merkið.
„Varðandi bláa merkið. Þá snerist það um að ég mundi fá fleiri tól til að vinna með til dæmis með Story á Instagram og slíkt. Mig langaði mikið í það. Mér var boðið það fyrir löngun tíma síðan sem ég gerði ekkert í. Ég hunsaði það eiginlega. Svo allt í einu sá ég að það væri hentugt upp á Instagramið sjálft og fór að requesta um að fá það. Þegar ég fékk það boðið fór ég strax í að setja það upp. En það hefur pottþétt verið hakkarinn sem hefur verið bakvið það,“ segir Jógvan.
Þurftir þú að borga eitthvað?
„Ég borgaði ekki neitt. Talaði við lögregluna og þeir gáfu mér leiðsögn í að bara gleyma þessu öllu saman og byrja upp á nýtt,“ segir hann frekar svekktur.