Leikarinn Bill Murray og söngkonan Kelis eru sögð vera nýjasta parið í Hollywood. Murray er 72 ára gamall á meðan Kelis er 43 ára og því 29 ára aldursmunur á parinu.
Orðrómur um samband Murray og Kelis fór á flug eftir að leikarinn sást á tónleikum hennar í Lundúnum síðastliðna helgi. Þá hefur hann einnig sést styðja hana á nokkrum öðrum tónleikum að því er fram kemur á US Sun.
Heimildarmenn segja parið hafa orðið náið á síðustu misserum eftir fyrstu kynni þeirra í Bandaríkjunum, en þau hafa einnig sést saman á hótelum. „Þau hittust í Bandaríkjunum sem kom af stað orðrómi innan bransans og hittust nú í Lundúnum á meðan þau voru bæði þar. Þau hafa greinilega náð vel saman,“ sagði einn heimildamannanna.
Leikarinn er líklega hve þekktastur fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndum á borð við Ghostbusters, Groundhog Day og Rushmore á meðan Kelis gerði garðinn frægan með laginu Milkshake.