Fyrrverandi klámmyndaleikkonan Jenna Jameson og eiginkona hennar, Jessi Lawless, giftu sig hinn 23. maí síðastliðinn í Las Vegas. Árið 2004 sagði Jameson frá því opinberlega að hún væri tvíkynhneigð, en hún segist einungis hafa verið með karlmönnum til að eignast börn.
Jameson og Lawless kynntust í gegnum TikTok á síðasta ári en byrjuðu ekki saman fyrr en í janúar síðastliðnum.
„Ég fann manneskjuna sem ég hefði eiginlega alltaf átt að vera með. Ég reyni að fara yfir það í huganum hvers vegna ég hafi nokkurn tímann verið í sambandi eða hjónabandi með karlmönnum, og það er sjálfselskt og slæmt að segja það, en ég held að drifkrafturinn hafi verið að eignast börn,“ sagði Jameson í samtali við People.
Jameson á þrjú börn úr fyrri samböndum, en hún á 14 ára tvíbura með Tito Ortiz og 6 ára dóttur með Lior Bitton. Þetta er í þriðja sinn sem Jameson gengur í það heilaga, en hún var áður gift Brad Armstrong frá 1996 til 2001 og Jay Grdina frá 2003 til 2007.