Guðmundur Jörundsson, fatahönnuður og veitingamaður, hyggst nú byrja að hanna nýja fatalínu eftir að hafa verið í fríi frá slíku síðastliðið ár. Hann stendur nú fyrir fatamarkaði sem fer fram á Kex-hostel í dag til þess að losa út það gamla og rýma fyrir nýju.
Nóg hefur verið að gera hjá Guðmundi, en ásamt því að hanna eilítið í hliðarverkum hefur hann staðið í því að opna veitingastaðinn og verslunina Nebraska á Barónsstíg.
Í samtali við mbl.is segist hann hafa ætlað sér að byrja að hanna fatalínur fyrr en raun ber vitni og selja í versluninni.
„Svo hugsaði ég það núna þegar ég fór að fara í gegnum allt dótið að ég þyrfti kannski að hreinsa til og fara í gegnum þetta. Þá fékk ég löngun til að gera eitthvað nýtt, losa út gamla og fara að hanna aftur svona að fullu. Það tók smá tíma að safna orku aftur,“ segir Guðmundur.
Hann segir kveikjuna af þessu öllu hafa verið þegar hann hélt lítinn fatamarkað fyrir um mánuði síðan.
„Það var eiginlega bara við það, þegar ég fór að fara í gegnum öll gömlu sýningarfötin og skoða allt. Það kveikti eitthvað svona í mér bara. Ég ákvað bara að taka þessa ákvörðun og gera almennilegan fatamarkað og stærri og tilkynna þetta til að grafa þetta í stein,“ segir Guðmundur.
Þegar því er velt upp hvort það verði ekki erfitt að sleppa ákveðnum flíkum á markaðnum svarar hann því játandi en segir skemmtilegra að einhver eigi hlutina sem njóti þeirra.
„Þetta tók líka einhver ár, ég einhvern veginn tímdi ekki að láta þetta fara, vissi ekki hvað ég ætlaði að gera við og svo var líka heil lína sem var á farandsýningu sem byrjaði í Frankfurt og ég fékk senda fyrir tveimur árum. [...] Svo var einhvern veginn bara niðurstaðan mín að ég fattaði, heyrðu ég er bara að fara að hafa þetta ofan í kassa eða hangandi einhvers staðar og mér finnst miklu skemmtilegra að einhver eigi þetta sem raunverulega vill eiga þetta,“ segir Guðmundur.
Hann segir úrvalið á fatamarkaðnum verða mjög fjölbreytt, til sölu séu einstakar vörur, prufur, sýningarvörur ásamt fleira klassískara sem hann hefur gert á síðustu árum.
Spurður hvernig tilfinningin sé að skríða í áratuginn síðan Jör var stofnað segir hann tilfinninguna galna.
„Mér finnst galið að það séu komin tíu ár, þetta er búið að líða mjög hratt en það er bara fallegt, það er fallegt að eldast og þroskast,“ segir Guðmundur og bætir því við að hann hafi lært margt en hann var 24 ára þegar merkið var stofnað.
Hann segist hafa fattað allt í einu að hann langaði aftur að fara að gera það sem honum finnst skemmtilegast.
„Mér finnst langt skemmtilegast að gera línur og sýningar, búa til heiminn í kringum það. Það er alveg gaman að hanna föt, ég var náttúrulega líka bara að hanna jakkaföt , skyrtur og svona meira klassískt dót [...] en mér finnst skemmtilegast að gera heildræna fatalínu og kynna hana. Það er það sem mig langar að fara að gera aftur,“ segir Guðmundur.
Spurður hvort að það séu einhverjar ákveðnar flíkur sem séu í uppáhaldi eða sem hann hefði kannski átt að sleppa segist hann vissulega eiga sér uppáhalds flíkur. Mikilvægt sé þó að bera virðingu fyrir verkinu þar sem tískan fari alltaf í hringi.
„Ef manni finnst þetta ljótt núna þá finnst manni þetta geðveikt flott eftir tíu ár eins og þetta er alltaf, sem er náttúrulega [það] sem er skemmtilegt og fyndið við þetta. Manni fannst Crocs viðbjóður fyrir nokkrum árum eða bara allt 90‘s. Maður þarf bara að bera virðingu fyrir [hverju tímabili],“ segir Guðmundur.
Hann játar því að fatamarkaðurinn verði eflaust heilandi að losa út gamla hluti og fara í gegnum þá. Það hafi líka verið mjög gaman fyrir hann að fara í gegnum gamlar línur og heyra enn, tíu árum síðar, af fólki sem notar gamlar Jör flíkur mikið sem eru enn í topp standi.
Guðmundur segir markaðinn vera mjög fjölbreyttan.
„Ég áttaði mig eiginlega ekki alveg á því fyrr en ég setti þetta allt upp og fór í gegn. Þetta eru klassískar skyrtur, kjólar, toppar og gallabuxur, blússur, eitthvað af jakkafötum, skór, veski, það er bara allur fjandinn. [...] Bara eins og Jör var, með mjög breiðan kúnnahóp og aldurshóp,“ segir hann að lokum.
Nánari upplýsingar um markaðinn má sjá með því að smella hér en hann hefst á Kex-hostel í dag, laugardag klukkan 13.00 og stendur til 16.00.