Netið fór á hliðina í síðustu viku þegar söngkonan Kelis og stórleikarinn Bill Murray sáust saman. Kelis er 43 ára á meðan Murray er 72 ára og því 29 ára aldursmunur á parinu. Nú hefur Kelis rofið þögnina um ástarsamband þeirra og aldursbilið.
Aðdáendur Kelis virðast agndofa yfir sambandinu, en þegar Kelis birti bikinímyndir af sér á Instagram um helgina vildu fylgjendur hennar ólmir fá að vita meira um samband hennar við stórleikarann.
Sumir sökuðu Kelis um að nýta Murray til frægðar, en hún svaraði þeim fullum hálsi og fullyrti að þau væru bæði „rík og hamingjusöm.“
Fram kemur á vef The Sun að Kelis og Murray hafi kynnst eftir að söngkonan missti eiginmann sinn, Mike Mora, í mars á síðasta ári eftir baráttu við fjórða stigs krabbamein í maga.
„Þau hafa sést á sama hótelinu og hann hefur horft á hana á tónleikum nokkrum sinnum. Bæði hafa þau upplifað missi nýlega og hafa því þau sameiginlegu tengsl sín á milli,“ sagði heimildamaður The Sun, en fyrrverandi eiginkona Murray lést 2021.