Leikkonan Kristin Davis segist ekki vilja blanda sér í deilurnar á milli Söruh Jessicu Parker og Kim Cattrall, mótleikkvenna sinna úr þáttunum Sex and the City. Nýlega var tilkynnt að Cattrall myndi koma fram í hlutverki Samönthu Jones í annarri seríu af þáttunum And Just Like That, endurkomuþætti Beðmálanna í borginni, en hún kom ekki fram í þeirri fyrstu.
Davis tjáði sig um margra ára deilur þeirra Parker og Cattrall í nýlegu viðtali við Telegraph. Segist hún ekki vilja eyða orku sinni í deilurnar og að það þurfi að virða óskir annarra. Segist hún þó skilja hvers vegna aðdáendur séu í uppnámi en það sé ekkert í hennar valdi sem geti breytt aðstæðunum, sama hversu heitt hún óski þess.
Tökum á annarri þáttaröðinni af And Just Like That lauk í mars síðastliðnum og samkvæmt heimildum var veru Cattrall haldið leyndri á tökustað. Því er ólíklegt að stöllurnar fjórar muni sjást saman á skjánum, en aðdáendur eru samt sem áður mjög spenntir fyrir að sjá Samönthu Jones á ný.