Bítlarnir gefa út lag með aðstoð gervigreindar

Bítlarnir gefa út sitt hinsta lag rúmum 50 árum eftir …
Bítlarnir gefa út sitt hinsta lag rúmum 50 árum eftir upplausn hljómsveitarinnar.

Paul McCartney, annar tveggja eftirlifandi Bítla, tilkynnti í dag að hinsta lag hljómsveitarinnar yrði gefið út á þessu ári.

Um er að ræða prufuupptöku Johns Lennons heitins með lagi sem hefur verið klárað með hjálp gervigreindar. 

McCartney nefndi ekki hvaða lag Lennons væri á plötunni en talið er að um sé að ræða lagið Now And Then, sem Lennon samdi 1978. Lennon var skotinn til bana árið 1980, tíu árum eftir upplausn hljómsveitarinnar.  

Ekkja Lennons, Íslandsvinurinn Yoko Ono, færði McCartney upptökuna árið 1994. Tvö lög af upptökunni, Free As A Bird og Real Love voru hljóðblönduð á ný og gefin út árið 1995 og 1996. 

Sögðu gervigreindinni að fjarlægja gítarhljóð

Reynt var að gera slíkt hið sama við Now And Then en ekki tókst að fjarlægja klið og bakgrunnshljóð af upptökunni og þar af leiðandi var vikið frá fyrirhugaðri útgáfu lagsins. 

Nú hefur hið ómögulega hins vegar reynst mögulegt með aðstoð gervigreindarforrits, að sögn McCartneys. Hann hefur unnið að verkefninu ásamt Peter Jackson, leikstjóra heimildarmyndarinnar The Beatles: Get Back

Forritið hefur náð að aðskilja rödd Lennon og píanóflutning frá gítarglamri í bakgrunni. upptökunnar.

„Þeir segja gervigreindinni, þetta er röddin, þetta er gítar. Fjarlægið gítarinn,“ útskýrði McCartney. 

Paul McCartney segir notkun gervigreindar hafa gert honum kleift að …
Paul McCartney segir notkun gervigreindar hafa gert honum kleift að nota gamla upptöku Johns Lennons. AFP

Sting og Ice Cube ekki sammála

McCartney sagði tæknina ógnvekjandi og spennandi á sama tíma. „Tæknin er spennandi af því að þetta er framtíðin,“ sagði hann og bætti við: „Við verðum bara að sjá hvert þetta leiðir.“

Ekki eru allir listamenn þó par sáttir með notkun gervigreindar í listsköpun, en tónlistarmaðurinn Sting varaði við notkun hennar í tónsmíði í síðasta mánuði og sagði „mikilvægt að verja mannauð okkar gegn gervigreind.“

Kvaðst hann telja að barátta tónlistarmanna gegn notkun gervigreindar yrði mikil í framtíðinni. 

Rapparinn Ice Cube tjáði sig einnig um gervigreind í sama mánuði og kallaði tæknina „djöfullega“ og hótaði málsókn við hvern þann sem notaði gervigreind til að endurskapa rödd hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar