Kanadíska tónlistarkonan Grimes er þekkt fyrir að fara sínar eigin leiðir að hlutunum og er óhrædd við að nota líkama sinn sem hluta af sköpunarferli sínu.
Undanfarin misseri hefur Grimes unnið að því að þekja líkama sinn í því sem hún kallar „geimveruör“ í þeirri von að öðlast framandi líkama.
Tónlistarkonan, sem er 35 ára, birti færslur á Instagram um helgina þar sem hún frumsýndi nýjustu húðflúrin, en þar sýnir hún eins konar geimveruletur gert með hvítu bleki, staðsett undir viðbeininu og heljarinnar mynstur, flúrað með rauðu bleki yfir stóran hluta af hægri fótlegg hennar.
Grimes er komin vel á veg með að þekja líkama sinn í þessum svokölluðu „geimveruörum“ en í apríl 2021, birti hún fyrstu myndirnar, en þá lét hún flúra ör yfir allt bakið á sér með hvítu bleki.
Tónlistarkonan er hvað þekktust fyrir samband sitt við milljarðamæringinn Elon Musk, en fyrrverandi parið á saman tvö börn, soninn X Æ A–12 og dótturina Y.