Í síðasta mánuði sótti Christine Baumgartner um skilnað við leikarann Kevin Costner eftir 18 ára hjónaband. Nú segir Costner hins vegar að fyrrverandi eiginkona hans neiti að flytja af heimilinu.
Í kaupmála fyrrverandi hjónanna kemur fram að Baumgartner skuli yfirgefa heimilið og taka með sér eigur sínar innan 30 daga frá því skilnaðarpappírum var skilað inn, en hún skilaði gögnunum inn 1. maí síðastliðinn.
Þar kemur einnig fram að Costner skuli greiða Baumgartner 1,2 milljónir bandaríkjadala, en fram kemur á vef Daily Mail að hann hafi þegar greitt henni fjármagnið til að kaupa nýtt heimili.
Þrátt fyrir það segir hann Baumgartner ekki enn hafa flutt af heimilinu, en hann segist halda að hún hafi ákveðið að vera áfram á heimilinu til þess að fá hann til að láta undan ýmsum fjárkröfum.
Þá sagðist hann vera opinn fyrir því að verða við ákveðnum fjárkröfum til að fá hana til að yfirgefa heimilið, þar á meðal að greiða henni fé til að leigja húsnæði og leggja til fé fyrir flutningunum sjálfum.
Húsið er skráð á Costner sem hefur nú ákveðið að leita til dómstóla og krefst hann þess að hún yfirgefi heimilið í samræmi við kaupmálann.