Bandaríski tónlistarmaðurinn Charlie Puth er þekktur fyrir að tala opinskátt og af hreinskilni, en hann hefur ávallt verið ófeiminn við að deila heldur persónulegum hlutum með aðdáendum sínum.
Það kom eflaust fáum á óvart þegar Puth deildi sögunni um það hvernig lagið Marks on My Neck varð til en söngvarinn stoppaði í miðjum samförum til að semja lagið.
Í viðtali sínu við Interview segir hinn 31 árs gamli Puth, sem er hvað þekktastur fyrir lögin See You Again og We Don’t Talk Anymore, að hann sé tilbúinn til að gera nánast hvað sem er til að semja hið fullkomna lag og viðurkenndi að hann hafi stoppað í miðjum samförum. „Ég samdi lagið í miðjum klíðum,” sagði tónlistarmaðurinn um lag sitt Marks on My Neck.
„Kannski hefði ég frekar átt að einbeita mér að því sem ég var að gera, en laglínan skaust upp í hausinn á mér. Ég brá mér frá í augnablik, tók upp litla raddprufu og hélt svo áfram að gera það sem ég var að gera,” útskýrði Puth. Lagið er að finna á plötunni Charlie sem kom út á síðasta ári.