Glæsileg 17. júní dagskrá víða

Það verður ófáum fánum veifað um allt land.
Það verður ófáum fánum veifað um allt land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðhátíðardagurinn er að renna upp enn á ný og eins og svo oft áður er glæsilega dagskrá að finna víða um land. Erfitt er að fara yfir alla þá skemmtun sem er í boði en mbl.is tók saman brot af því sem er í boði og hafði upp á dagskrám dagsins á nokkrum stöðum á landsbyggðinni. 

Lesendur eru hvattir til þess að kynna sér götulokanir á sínu svæði einnig hafa einhver bæjarfélög mælt gegn því að gæludýr séu höfð með í mannmergðina þar sem það getur valdið stressi fyrir dýrin. Til dæmis eru hundar ekki leyfðir á viðburðastöðum hjá Hafnarfjarðarbæ

Reykjavík

Sem fyrr hefjast hátíðarhöldin klukkan 11.00 fyrir utan Alþingishúsið á Austurvelli þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, leggur blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar. Þá flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hátíðarræðu og fjallkona ársins ávarpar gesti. Athöfnina verðu hægt að horfa og hlusta í gegnum beinar útsendingar Rúv.

Í kjölfarið heldur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir í kirkjugarðinn við Suðurgötu og mun leggja blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur.

Fjölbreytt hátíðardagskrá verður svo í boði víða um bæ og hefst árlega skrúðgangan klukkan 13.00 og fer hún frá Hallgrímskirkju að Hljómskálagarðinum þar sem dagskrá stendur frá 13.30 til 17.00.

Hér má sjá kort af hátíðarsvæðum Reykjavíkur.
Hér má sjá kort af hátíðarsvæðum Reykjavíkur. Reykjavíkurborg

Í Hljómskálagarði verður ókeypis aðgangur í hoppukastala og leiktæki, listhópar Hins hússins verða á víð og dreif frá klukkan 14.00 og skylmingaklúbburinn HEMA leikur listir sínar frá klukkan 13.30 og býður gestum og gangandi upp á að prófa að skylmast. Kraftakeppni hefst við tjörnina klukkan 14.00 og Sirkus Íslands býður upp á sýningu klukkan 16.00.

Heljarinnar dagskrá verður svo á sviðinu í garðinum frá 14.00 til 16.40. Meðal gesta eru Leikhópurinn Lotta, Langi Seli og skuggarnir, hinir ýmsu danshópar, Inspector Spacetime, FLOTT og Bogomil Font.

Fyrir svanga verða matarvagnar í bæði Hljómskálagarðinum og á Klambratúni en þar hefst dagskrá klukkan 14.00 og stendur til 17.00.

Boðið verður upp á hoppukastala og leiktæki, sýningu frá Sirkús ananas, fallhlífarstökk og fleira.

Gleðin ræður eflaust ríkjum á þessum degi, sama hvernig viðrar.
Gleðin ræður eflaust ríkjum á þessum degi, sama hvernig viðrar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátíðardagskrá verður einnig í Árbæjarsafni frá klukkan 13.00 þar sem þjóðbúningurinn og þjóðdansar verða í aðalhlutverki. Heimabakað góðgæti og heitt á könnunni við Dillonshús.

Í Grafarvogi hefst hátíðardagskrá við Gufunesbæ klukkan 12.00 og stendur til 14.00. Candy floss, pylsur og plötusnúður á svæðinu ásamt útileiktækjum og Vogabúum sem kenna tálgun við varðeld.  

Knattspyrnusamband Íslands stendur fyrir hátíðardagskrá í Laugardalnum í tilefni þjóðarhátíðardagsins og landsleik á milli Íslands og Slóvakíu. Dagskráin stendur frá 15.00 til 18.15 og er opin öllum.

Boðið verður upp á hoppukastala, knattþrautir, matarvagna, tónlist og hægt verður að kaupa candy floss og landsliðsvörur á svæðinu.

Frekari upplýsingar um fleiri dagskrárliði eins og harmonikkudansleik í ráðhúsinu má sjá á 17juni.is eða með því að smella hér.

Kópavogsbær

Þjóðhátíðardagskrá Kópavogsbæjar hefst klukkan 10.00 á 17. júní hlaupi fyrir börn í 1.-6. bekk. Hlaupið sér Frjálsíþróttadeild Breiðabliks um og fá allir þátttakendur verðlaunapening.

Önnur dagskrá bæjarins hefst klukkan 12.00 og fer skrúðganga frá Menntaskólanum í Kópavogi klukkan 13.30 við undirleik Skólahljómsveitar Kópavogs undir vökulu auga Skátafélagsins Kópa.

Hátíðardagskrá verður á Rútstúni og við Versali frá 14.00 til 16.00 og við Menningarhúsin frá 14.00 til 17.00. Hoppukastalar, leiktæki og andlitsmálun verða á hátíðarsvæðum. Þá verður einnig dagskrá við Salalaug og Sundlaug Kópavogs.

Eva Ruza og Hjálmar halda uppi stuðinu á Rútstúni en þar kemur fjallkonan fram, Gunni og Felix skemmta og Friðrik Dór, Bríet og fleiri trylla lýðinn.

Utan um dagskrá við Versali halda Saga Garðars og Snorri Helga. Ásamt fyrrnefndum skemmtikröftum verða þar Elísabet Ormslev og Sverrir Bergmann, Eyrdís og Haraldur úr Draumaþjófinum og Valgerður Guðnadóttir.

Við Menningarhúsin verða skemmtikraftakarlar, Húlladúllan, Krakkahestar, sumarsmiðjur og fleira.

Nánari upplýsingar og frekari dagskrárliði má sjá á kopavogur.is eða með því að smella hér.

Hafnarfjörður

Þjóðhátíðardagskrá Hafnarfjarðarbæjar stendur frá 08.00 til 22.00. Hún hefst með hefðbundnara sniði en Skátafélagið Hraunbúar flaggar víða um bæ og fer fánahylling fram á Hamrinum klukkan 08.00.

Fjölbreytta dagskrá má finna víða um bæinn en þar má til dæmis nefna sjósund við Langeyrarmalir frá 09.00 til 13.00 þar sem bæjarbúum er leiðbeint af sjósundsfélaginu Urtunum, opið hús hjá Brettafélagi Hafnarfjarðar frá 10.00 til 14.00 og opið hús hjá Siglingaklúbbnum Þyt frá 10.00 til 18.00. Hjá Brettafélaginu verður hægt að koma og leika sér á hjólabrettum, hlaupahjólum og BMX hjólum. Hjá Þyt verður hægt að prófa að róa kajak og mögulega fara í siglingu á kjölbát ásamt fleiru.

Hátíðarhöld fyrir alla fjölskylduna hefjast á Thorsplani klukkan 13.30 og standa til 16.30. Þar mun fjallkonan Klara Elíasdóttir ávarpa lýðinn, bæjarstjórinn setja hátíðarhöldin, Sirkus Íslands sýna listir sínar og Einar töframaður mæta á svæðið ásamt fjöldanum öllum af öðrum skemmtikröftum. Síðar um kvöldið verður sannkölluð tónlistarveisla á svæðinu frá 19.00 til 22.00. Boðið verður upp á uppistand, Sigga Ózk, Prettyboitjokkó, Svala Björgvins og Páll Óskar mæta á svæðið ásamt fleirum. Kynnir er Eygló Hilmarsdóttir leikkona.

Á Hörðuvöllum verður hringekja, hoppukastalar, andlitsmálun, sölubásar og matarvagnar frá 13.30 til 16.30.

Upplýsingar um fyrrnefnda viðburði og margt, margt fleira má sjá á Hafnarfjordur.is eða með því að smella hér.

Garðabær

Dagskrá Garðabæjar fer fram á Garðatorgi og í sal Tónlistarskólans. Skátafélagið Vífill ásamt Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar munu leiða skrúðgöngu sem heldur frá hofsstaðatúni að Garðatorgi klukkan 12.30.

Klukkan 13.00 til 15.00 fer fram dagskrá á sviði á Garðatorgi 4 þar sem forseti bæjarstjórnar ávarpar gesti og fjallkonan flytur ljóð. Gunni og Felix, prettyboitjokkó og fleiri skemmta lýðnum. Hoppukastalar, candy floss, fánasmiðja og andlitsmálun verða á svæðinu.

Þá verður Kvenfélag Garðabæjar með kaffihlaðborð í Sveinatungu frá 13.30 til 15.30.

Fleiri viðburðir verða víða, Álftaneslaug verður opin frá klukkan 10.11 til 14.00, Bóksafn Garðabæjar heldur utan um ratleik og tónleikar með hljómsveitinni Mandólín fara fram í tónlistarskólanum frá 21.00 til 22.00.

Fleiri viðburði og frekari upplýsingar má sjá á Gardabaer.is eða með því að smella hér.

Mosfellsbær

Dagskráin í Mosfellsbæ er ekki af verri endanum en hún hefst á hátíðarguðsþjónustu í Lágafellskirkju klukkan 11.00. Klukkan 13.30 fer svo skrúðganga frá Miðbæjartorginu að Hlégarði undir vökulu auga Mosverja.

Fjölskyldudagskrá hefst við Hlégarð klukkan 14.00 og tekur skólahljómsveit Mosfellsbæjar á móti skrúðgöngunni, forseti bæjarstjórnar flytur hátíðarræðu og fjallkonan ávarpar gesti.

Afturelding stendur fyrir kaffihlaðborði í Hlégarði frá 14.00 til 16.00.

Lilli klifurmús og Marteinn skógarmús kynna dagskrána, Langi Seli og skuggarnir taka lagið, Lára og Ljónsi og Leikhópurinn Lotta mæta á svæðið ásamt fleiru.

Klukkan 16.00 hefst svo aflraunakeppni þar sem keppt verður um titlana Sterkasti maður Íslands og Stálkonan 2023 og fer keppnin fram á fram á Hlégarðstúninu.

Frekari upplýsingar um viðburðina má sjá á mos.is eða með því að smella hér.

Seltjarnarnes

Á Seltjarnarnesi stendur dagskráin frá klukkan 10.00 til 15.00. Klukkan 10.00 hefst bátasigling frá smábátahöfninni í umsjón Siglingarfélagsins Sigurfara og Björgunarsveitarinnar Ársæls, hún stendur til 12.00.

Boðið verður upp á hátíðarguðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju klukkan 11.00 og fer skrúðganga frá Leikskóla Seltjarnarnes yfir í Bakkagarð klukkan 12.45. Í skrúðgöngunni verða lúðrasveit, stultufólk, fánaberar og trúðar.

Dagskrá í Bakkagarði hefst klukkan 13.00 og flytur formaður menningarnefndar hátíðarávarp og fjallkonan 2023 ljóð eftir Auði Jónsdóttur.

Íþróttaálfurinn, Solla Stirða, Júlí Heiðar og Kristmundur og fleiri halda uppi stuðinu.

Á svæðinu verður lazertagvöllur, vatnaboltar, hoppukastali og tilheyrandi, andlitsmálning, candy floss, blöðrur og fleiri veitingar ásamt fleiru. Þá verða hestateymingar í boði frá 12.45 til 14.45.

Frekari upplýsingar um dagskrána má sjá á seltjarnarnes.is eða með því að smella hér.

Dagskrá á landsbyggðinni

Hér að neðan má sjá dagskrá nokkurra bæjarstæða á landsbyggðinni. 

Akureyri - sjá dagskrá með því að smella hér.  

Borgarbyggð - sjá dagskrá með því að smella hér.  

Eyrarbakki - sjá dagskrá með því að smella hér. 

Hveragerði - sjá dagskrá með því að smella hér. 

Múlaþing - sjá dagskrá með því að smella hér.

Ísafjarðarbær - sjá dagskrá með því að smella hér. 

Rangárþing eystra - sjá dagskrá með því að smella hér. 

Reykjanesbær - sjá dagskrá með því að smella hér. 

Selfoss - sjá dagskrá með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir