Snilld eða bara bull?

Nicola Walker og Sean Bean í hlutverkum sínum í Hjónabandi.
Nicola Walker og Sean Bean í hlutverkum sínum í Hjónabandi. BBC

Sagan hefst á rifrildi um kartöflu. Hann langaði í kartöflu en hún kom með flögur. Fannst ekki taka því að spyrja afgreiðslumanninn hvort hægt væri að fá kartöflu – enda var hann ekki nema 12 ára eða svo. Hann lætur sér það lynda en finnst samt að hún hefði getað spurt. Rifrildið stigmagnast og leikurinn berst frá biðsalnum, inn í ranann og loks alla leið út í flugvél. Þau eru sumsé á leiðinni heim eftir langþráð frí á Spáni. Þegar þau loksins eru sest og búin að óla sig niður eru stór orð látin falla.

„Þetta er sérkennilegur þáttur,“ hafa ábyggilega margir hugsað með sér þegar þeir höfðu hlammað sér niður í sófann síðasta sunnudag til að horfa á breska myndaflokkinn Hjónaband, eða Marriage, í Ríkissjónvarpinu. Fyrsta þátt af fjórum. Og ekki urðu samtölin skynsamlegri eða dýpri eftir því sem á leið. Hvort sem hjónin Emma og Ian áttu í hlut eða aðrar persónur í téðum myndaflokki.

Gagnrýnendur ekki á einu máli

Snilld eða bull? Þarna er efinn. Gagnrýnendur eru ekki á einu máli. Sumir segja snilldina liggja í því að ekkert sé sagt í Hjónabandi en samt svo ofboðslega margt. Persónurnar ræða með öðrum orðum ekki um neitt sem skiptir máli en samt segir það okkur svo ofboðslega margt um líðan þeirra og stöðu í lífinu. Aðrir segja þetta bara bull og áhorfendur sem hætti sér út á svellið komi til með að steindrepast úr leiðindum.

Dæmi nú hver fyrir sig.

Emma og Ian eru í forgrunni; hjón á miðjum aldri sem virðast föst í viðjum vanans. Sorg hefur litað tilveru þeirra lengi og þau gráta enn – en ekki saman. Ættleidd dóttir þeirra er góð sál og efnilegur tónlistarmaður en kann ekkert fyrir sér í karlamálum. Kemur heim með hvern lúserinn og dónann á fætur öðrum. Svo er það pabbi Emmu, gamall karl og bitur sem spjaldar dóttur sína fyrir að hafa yfirgefið sig. Hún skrapp eins og við munum í frí. Þá koma við sögu starfsmenn í ræktinni, sem er hápunkturinn á deginum hjá Ian eftir að honum var sagt upp störfum, og samstarfsmenn Emmu á einhverri skrifstofu, þar sem allt fór í hund og kött meðan hún brá sér frá. „Þú mátt ekki fara aftur í frí,“ segir yfirmaður hennar. „Ég er ekki að grínast. Þú mátt ekki fara aftur í frí!“ 

Minnir á Mömmu

Sjái menn líkindi með Hjónabandi og Mömmu, eða Mum, sem RÚV sýndi einnig fyrir ekki svo löngu, eru þeir ekki á villigötum; við erum nefnilega að tala um sama höfund, breska háðfuglinn Stefan Golaszewski. Miðaldra og jafnvel síðmiðaldra karl, ekki satt? Nei, ekki aldeilis. Hann er fæddur á því herrans ári 1980. Þriðja serían – og raunar sú fyrsta – úr ranni Golaszewskis er svo Hann & hún, eða Him & Her, sem fjallaði um húðlatt ungt par og raunir þess í yfirspenntum samtímanum. Lesbók er ekki kunnugt um hvort þeir þættir voru sýndir hér um slóðir. Bæði Hann & hún og Mamma hlutu BAFTA-verðlaunin á sínum tíma.

Nánar er fjallað um Hjónaband og tengda þætti í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar