Söngkonan Bebe Rexha lenti í miður skemmtilegri upplifun á tónleikum sínum er haldnir voru á sunnudag. Rexha fékk síma grýtt heldur harkalega í andlitið og féll í kjölfarið niður á sviðið.
Söngkonan var með tónleika á The Rooftop við Pier 17 í New York-borg og voru þeir hluti af tónleikaferðalagi söngkonunnar, Best F’n Night of My Life.
Í myndbandi sem hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum má sjá augnablikið þegar söngkonan fær símann í andlitið í miðjum lagaflutningi og hvernig henni bregður. Starfsteymi söngkonunnar sést síðan hlaupa inn á sviðið, stöðva tónleikana og leiða Rexha afsíðis.
Tónleikagestum varð mjög brugðið og margir lýstu yfir hneykslun sinni á samfélagsmiðlum. „Algjörlega frábærir tónleikar, en eyðilagðir af einum aðdáanda sem kaus að grýta símanum sínum í Bebe Rexha. Vonandi er allt í lagi með hana,” skrifaði einn aðdáandi. „Aumingja Rexha, ég vona svo sannarlega að það sé í lagi með hana. Jafnvel þó það sé líkamlega í lagi með hana þá hefur þetta sært andlega, skrifaði annar.
Hvorki Rexha né kynningarteymi hennar hafa gefið út yfirlýsingu varðandi líðan söngkonunnar.
Absolutely great show ruined by a fan throwing their phone at @BebeRexha hopefully she is ok after that pic.twitter.com/4eBScgurv5
— Alex Chavez (@captiv_8_) June 19, 2023