Umdeildi áhrifavaldurinn Andrew Tate hefur verið ákærður í Rúmeníu fyrir nauðgun, mansal og skipulagða glæpastarfsemi. Bróðir hans Tristan Tate og tveir félagar þeirra eiga einnig yfir höfði sér ákæru.
Þessu greinir BBC frá. Tate-bræðurnir voru fyrst handteknir á heimili þeirra í Búkarest í desember síðastliðnum, en í mars voru þeir færðir úr gæsluvarðhaldi í stofufangelsi.
Í ákærunni sem lögð var fyrir dómstól í Búkarest kemur fram að sakborningarnir fjórir hafi stofnað skipulagðan glæpahóp árið 2021 til þess að misnota konur kynferðislega í Rúmeníu, Bandaríkjunum og Bretlandi.
Þá eru sjö meint fórnarlömb nefnd í ákærunni sem segja Tate-bræðurna hafa lokkað sig til sín með fölskum loforðum um ást og hjónaband. Sakborningarnir eru sagðir hafa flutt meint fórnarlömb í byggingar í Ilfov-sýslu í Rúmeníu þar sem þeim var hótað, höfð undir stöðugu eftirliti og þvinguð til skulda.
Sakborningarnir eru einnig sagðir hafa neytt konurnar til að taka þátt í klámi sem síðar var deilt á samfélagsmiðlum. Þá er einn þeirra sakaður um að hafa nauðgað konu tvisvar í mars 2022.
Réttarhöldin hefjast ekki strax og búist er við að þau muni taka nokkur ár. Sakborningarnir hafa allir neitað ásökunum.