Útför leikarans ástsæla Treat Williams fór fram í gær, mánudag. Nánir vinir og fjölskylda heiðruðu minningu hins látna leikara, en útförin fór fram í kyrrþey í Vermont-rík þar sem hann bjó ásamt eiginkonu sinni til 35 ára, Pam Van Sant.
Williams lætur eftir sig eiginkonu sína sem hann kvæntist árið 1988 og tvö börn, Gill, 31 árs og Ellie, 25 ára. Van Sant og Gill voru með þeim fyrstu á vettvang eftir umferðarslysið sem átti sér stað hinn 12. júní síðastliðinn, en þá var leikarinn enn með meðvitund. Hann var drifinn með sjúkraflugi til Albany í New York, þar sem hann lést skömmu síðar af innvortis áverkum.
Dóttir leikarans minntist föður síns í færslu á samfélagsmiðlum skömmu eftir að hann lést. „Þetta er sársauki sem ég hef aldrei upplifað. Ég er gjörsamlega mölbrotin,“ skrifaði Ellie Williams.