Rússneska fyrirsætan og áhrifavaldurinn, Vlada Antropova, var flutt í skyndi á gjörgæslu þar sem hún berst nú fyrir lífi sínu eftir að hafa gengist undir lýtaaðgerð á nefi.
Fyrirsætan innritaði sig á einkarekna læknamiðstöð rétt fyrir utan Moskvu til að gangast undir lýtaaðgerð á nefi. Skömmu eftir aðgerðina missti Antropova meðvitund og var flutt með hraði á gjörgæslu, en hún er nú í öndunarvél á Burdenko-sjúkrahúsinu í Moskvu.
„Stærsta áskorunin er að skipta um nefbrúnina þegar beinvefurinn er skorinn. Blæðingar og jafnvel skemmdir á höfuðkúpubotni geta átt sér stað, sem getur leitt til dauða,“ sagði lýtalæknirinn Igor Korotkoy í samtali við Daily Mail.
Fjölskylda fyrirsætunnar bíður nú örvæntingafull og vonast til að Antropova komist til meðvitundar, en þau segja að í fyrstu hafi aðgerðin virst heppnast vel. Hins vegar hafi ástand hennar byrjað að versna verulega sem endaði með því að hún missti meðvitund og féll í dá.