3.500 manns horfðu á myndina undir berum himni

Björn Hlynur, Hafsteinn Gunnar, Timothy Spall og Sol Bondy við …
Björn Hlynur, Hafsteinn Gunnar, Timothy Spall og Sol Bondy við opnun TIFF hátíðarinnar í Transylvaníu. Ljósmynd/Netop Films

Kvikmyndin Northern Comfort í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar var fyrir skömmu sýnd fyrir 3.500 áhorfendur undir berum himni í Transilvaníu í Rúmeníu.

Myndin var þar opnunarmyndin á kvikmyndahátíðinni TIFF sem lauk nú um helgina.

Myndinni hefur verið vel tekið að sögn Hafsteins en hún hefur víða verið sýnd á kvikmyndahátíðum eftir að hún var frumsýnd á South by Southwest kvikmyndahátíðinni í Austin í Texas í Bandaríkjunum í mars. 

„Myndin verður sýnd á hátíðum í sumar og fer svo í almenna dreifingu í Frakklandi í ágúst. Það er fyrsta landið sem setur hana í bíó,“ segir Hafsteinn í samtali við mbl.is.

Kvikmyndin verður frumsýnd á Íslandi 15. september en sýn­ing­ar­rétt­ur á ­mynd­inni hef­ur þar að auki verið seld­ur til allra Norðurlandanna, Belg­íu, Hol­lands, Lúx­em­borg­ar, Ástr­al­íu, Ítal­íu, Spán­ar, Portú­gals og Pól­lands, auk fleiri landa.

Upp úr áramótum verður myndin sýnd á Netflix í Bretlandi, að sögn Hafsteins.

Hugmyndin kviknaði fyrir 15 árum

Kvik­mynd­inni er lýst sem svartri kó­medíu um hóp fólks á flug­hræðslu­nám­skeiði, þar sem ferðinni er heitið til Íslands en hún er á ensku.

Hafsteinn skrifaði handritið að myndinni með Dóra DNA og Bretanum Tobias Munthe en hugmyndina fékk Hafsteinn fyrir 15 árum þegar hann var nemandi í kvikmyndaskóla í New York í Bandaríkjunum.

„Þetta byrjaði þannig að það er manneskja mér nákomin sem er mjög hrædd við að fljúga. Ég heyrði af svona flughræðslunámskeiði þar sem fólk fer undir handleiðslu sálfræðings sem fer í hópmeðferð sem endar svo með flugi fram og til baka. Mér fannst þetta vera mjög hlaðnar aðstæður sem gætu afhjúpað viðkvæmustu hliðar fólks,“ segir Hafsteinn.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og handritshöfundur Northern Comfort.
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri og handritshöfundur Northern Comfort. Ljósmynd/Netop Films

Allt kostnaðarsamt sem kemur að flugvélum

Hvernig er að gera gamanmynd á ensku?

„Auðvitað er það krefjandi verkefni en sem betur fer vorum við með breskan handritshöfund með okkur í teyminu. Það var alveg nauðsynlegt að hafa einhvern sem talar tungumálið sem fyrsta tungumál í teyminu fannst mér til þess að ná núönsum í díalog sem maður hefur kannski ekki sjálfur,“ segir Hafsteinn.

Hann segir allt mjög flókið og kostnaðarsamt sem við kemur flugvélum í kvikmyndagerð.

„Myndin er dýr í eðli sínu. Hún er tekin upp í þremur löndum og á stórum alþjóðlegum flugvelli. Það þurfti að smíða sett. Í rauninni hefði kannski verið erfitt að gera hana á íslensku vegna þess að íslenskar myndir geta bara orðið ákveðið dýrar í fjármögnun. Þegar maður er kominn yfir á ensku opnast aðgengi að stærri leikurum og auknu fjármagni,“ segir Hafsteinn.

Með helstu hlutverk í myndinni fara Lydia Leonard, Timothy Spall, …
Með helstu hlutverk í myndinni fara Lydia Leonard, Timothy Spall, Ella Rumpf, Sverrir Guðnason, Simon Manyonda, Rob Delaney og Björn Hlynur Haraldsson. Ljósmynd/Netop Films

Yndislegt að vinna með Spall

Timot­hy Spall, einn þekkt­asti kvik­mynda­leik­ari Breta, fer með aðalhlutverkið í myndinni. Hann  er kannski þekktastur hér á landi fyrir að leika Peter Pettigrew í Harry Potter kvikmyndunum.

Hvernig er að vinna með Timothy Spall?

„Það er algjörlega yndislegt. Hann er ofboðslega mikill öðlingur og auðmjúkur maður og listamaður sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það var alveg stórkostlegt að kynnast honum og að vinna með honum. Út úr því kom mjög góður vinskapur. Ég get ekki annað en borið honum gríðarlega vel söguna, og þeim öllum.

Þau var æðislegur hópur sem small saman sem maður gat ekki vitað fyrirfram því þetta er fólk sem kemur úr ólíkum áttum,“

Eins og fyrr segir verður kvikmyndin sýnd á Íslandi 15. september. Framleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson hjá Netop Films á Íslandi (Hrútar, Undir Trénu, Goðheimar, Héraðið) í samframleiðslu við One Two Films í Þýskalandi og Good Chaos í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert gæddur góðum hæfileikum en hefur ekki nægilegt sjálfstraust til að nýta þér þá. Ástamálin ganga vel, þú svífur um á bleiku skýi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir