Eiður Birgisson kvikmyndaframleiðandi hefur fundið Jagúarinn sinn sem var stolið í vikunni fyrir utan bílasölu á Höfða.
Eiður hafði greinilega skilið heyrnartól eftir í bílnum, þar sem hann fann bílinn með hjálp staðsetningarbúnaðarins „Find my AirPods“
Bíllinn hafði fengið nýjar númeraplötur en var annars í fínu standi þegar hann fannst, að sögn Eiðs, sem biðlaði til netverja eftir að bílnum var stolið. Hann bauðst til þess að bjóða upp á ísbíltúr í fundarlaun en svo virðist vera að hann hafi sjálfur fundið hann og því færi hann sjálfur í ísbíltúrinn.
„Bíllinn er fundinn! Ég vil þakka öllum fyrir sem gáfu sér tíma í að deila þessu eða aðstoða með einum eða öðrum hætti. Bíllinn er alveg heill og hefur aldrei litið betur út. Hann fékk nýjar númeraplötur en annars er allt óbreytt við bíllinn,“ skrifar Eiður á fésbókarsíðuna sína.
„Í stuttu máli þá fannst bílinn þegar það var verið að leita að airpods með aðgerðinni find my airpods,“ skrifar Eiður en „Find My AirPods“ er staðsetningarkerfi í AirPods-heyrnartólum Apple sem leyfir eiganda heyrnartólanna að sjá hvar tólin eru staðsett.